Dagblaðið Vísir - DV - 03.02.2012, Síða 23

Dagblaðið Vísir - DV - 03.02.2012, Síða 23
„Ég vildi ekki að hann færi“ Fréttir 23Helgarblað 3.–5. febrúar 2012 H ann er mikill baráttumaður. Hann er þrjóskur og þver og Eiríkur gefst sko ekki upp. Ef hann ætlar sér eitthvað þá er alveg sama hversu marg­ ar beygjur og sveigjur verða á leið hans. Hann kemst það á þrjóskunni,“ segir móðir Eiríks Inga Jóhannsson­ ar sem komst lífs af þegar Hallgrím­ ur SI sökk í síðustu viku. Eiríkur var sá eini sem komst lífs af úr slysinu en þrír skipsfélagar hans drukknuðu. Móðir hans segist hafa haft vonda til­ finningu fyrir ferðinni. „Ég vildi ekki að hann færi í þessa sjóferð, bara alls ekki. Ég var með einhverja ónotatil­ finningu fyrir ferðinni eitthvað sem ég gat ekki útskýrt. Bara eitthvað sem ég fann innra með mér og ég reyndi að fá hann ofan af því að fara.“ Bróðir Eiríks, Hallgrímur, seg­ ist líka hafa haft slæma tilfinningu fyrir ferðinni. Hann segist þó ekki geta útskýrt af hverju. „Ætli það sé ekki bara af því við erum svo tengdir og höfum alltaf verið. Það eru bara tvö ár á milli og hann er náttúrulega litli bróðir minn. Ég hafði einhverja vonda tilfinningu fyrir þessu.“ Hall­ grímur býr á Siglufirði og fór og hitti bróður sinn áður en hann hélt í ferðina en þeir sigldu þaðan. „Ég fór niður í skip til hans og byrjaði á að fara með honum í gegnum allar dyr og allt svona til þess að leggja það á minnið hjá honum. Mér leist satt að segja ekkert á þetta,“ segir hann alvarlegur en segist þó ekki vita af hverju ónotin hafi stafað. „Hann fer út á sunnudeginum, á mánudegin­ um heyri ég einhverja stormviðvör­ un í útvarpinu og mér leist ekkert á þetta. Þá var ég kominn með hnút í magann. Ég hringdi í mömmu og spurði hvort hún hefði eitthvað heyrt í honum en það var náttúru­ lega enginn sími hjá þeim og enginn hafði heyrt neitt.“ Blendnar tilfinningar Sigríður, móðir Eiríks Inga, seg­ ir ómögulegt að lýsa tilfinningunni þegar hún komst að því að sonur hennar hefði lifað slysið af. „Þetta var ólýsanlegt. Þetta voru blendnar tilfinningar. Ég hafði hitt Magga og Gísla áður en þeir fóru í ferðina. Við fengum okkur kaffi í Staðarskála þeg­ ar þeir voru að fara norður á Siglu­ fjörð. Þannig að ég hafði hitt þá. Þeg­ ar ég komst að því að það væri búið að bjarga Eiríki þá beið ég alltaf eft­ ir að heyra að fleiri hefðu bjargast. Þetta er auðvitað ofsalega erfitt og mikil sorg, mjög blendnar tilfinning­ ar,“ segir hún einlæg. „Ég var ólýsanlega þakklát að hann skyldi komast heill heim. Ég var að reyna að öðlast styrk og ein af hugsunum mínum var sú að ég vissi að hann hræddist ekki sjóinn en auð­ vitað var hann hræddur,“ segir hún og tekur fram að Eiríki hafi alltaf liðið vel í sjó enda þaulvanur kafari. Hall­ grímur tekur undir þessi orð móður sinnar. Hann segir þá bræður allt­ af hafa laðast að sjónum. „Hann er mjög vanur sjónum. Það er eitthvað við sjóinn sem við bræðurnir sækj­ um í. Við erum svona ævintýragæjar og satt að segja friðar sjórinn mann.“ Hallgrímur segir það einkenna bróð­ ur sinn hvað hann sé góður mað­ ur. „Hann er falleg og góð sál, góður pabbi og góður eiginmaður.“ Kynntist sjónum á Hawaii Eiríkur Ingi Jóhannsson er fæddur í Reykjavík 9. ágúst 1976. Móðir hans er Sigríður Hallgrímsdóttir og faðir hans er Jóhann Unnar Guðmunds­ son. „Við höfum alla tíð staðið alveg ofboðslega þétt saman. Ég var svo ung þegar ég átti hann, bara 16 ára. Við höfum alltaf verið eins og eitt og erum svo miklir vinir,“ segir Sigríður. Eiríkur ólst fyrstu árin upp í Reykjavík, fyrir utan eitt ár sem hann bjó með móður sinni hjá systur hennar í Tennessee í Bandaríkjunum þegar hann var tveggja ára, þar lærði hann að tala og fyrsta tungumálið var enska. Móðir hans lýsir honum sem orkumiklu barni. „Hann var gjör­ samlega ofvirkur, alltaf að,“ segir hún hlæjandi. „Hann var mjög duglegur og vinnusamur lítill drengur.“ Eiríkur hóf skólagöngu sína í æf­ ingadeild Kennaraháskólans og var þar í fyrsta bekk grunnskólans. Stuttu seinna flutti fjölskyldan aftur til Bandaríkjanna. Móðir hans byrjaði að vera með bandarískum manni og þau fluttu búferlum til Kaliforníu og stuttu seinna til Hawaii. „Þar kynntist hann sjónum,“ segir Sigríður. „Hann var alltaf úti í sjó og synti mikið. Sjór­ inn og vatnið eru hans staðir og hafa alltaf verið. Honum hefur alltaf liðið vel í sjónum.“ Reyndur kafari Fjölskyldan bjó í Kaliforníu til ársins 1990 en þá fluttu þau aftur heim til Íslands. Móðir hans skildi við banda­ rískan eiginmann sinn og Eiríkur flutti til föður síns í hálft ár, gekk í Breiðholtsskóla og æfði körfubolta með Val. Síðan lá leið þeirra í Hrúta­ fjörðinn þar sem móðir hans réð sig sem ráðskonu og þaðan segist hann vera ef hann er spurður, að sögn Sig­ ríðar. Eiríkur flutti aftur í höfuðborg­ ina þegar hann var 16 ára og byrjaði þá í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann bjó hjá móðurafa sínum, Hallgrími, á meðan og vann meðal annars hjá Kraftvélum og íhlutum. Seinna fór hann í Stýrimannaskólann og lauk stýrimannsprófi og öðlaðist fleiri réttindi þaðan. Hann hefur verið á sjó og meðal annars siglt með Hval 9, Eldingu og Helgafellinu. Hann hefur einnig unnið hjá Össuri. Eitt helsta áhugamál Eiríks er köfun og hef­ ur hann ýmis köfunarréttindi. „Ætli hann hafi ekki byrjað að kafa í kring­ um 1997. Hann er búinn að mennta sig mikið í þessu og hefur aflað sér mikilla réttinda sem kafari og gerir mikið af því að kafa með góðum fé­ lögum,“ segir Sigríður og tekur fram að líklega hafi kafarareynsla hans hjálpað honum að komast lífs af úr sjóslysinu. Vildi ekki sleppa pabba Í kringum aldamótin kynntist Eiríkur eiginkonu sinni, Bertu Gunnlaugs­ dóttir. Þau eiga saman fjögur börn, Selku Sólbjörtu, 11 ára, Adam Valgeir, 6 ára, Vigdísi Sól, 4 ára, og svo Jónat­ an Jón, 1 árs. Að sögn móður hans er hann yndislegur faðir og mikill fjöl­ skyldumaður. „Hann er ofboðslega ljúfur og er eiginlega bara uppskrift að góðum pabba. Hann er svo góð­ ur. Númer eitt, tvö og þrjú þá er hann vinur barnanna sinna. Hann leikur við þau, sest niður í legó og kubbar með Adam og hjálpar Selku í fimleik­ um. Hann gerir með þeim skemmti­ lega hluti og kennir þeim að kafa,“ segir hún. Börn Eiríks voru að vonum ánægð að fá pabba heilan á húfi heim en móðir hans segir að yngri börn­ in hafi ekki gert sér grein fyrir alvöru málsins. „Þetta var ólýsanlegt. Þegar þau hittust þá voru þessu yngstu bara ánægð að fá pabba heim, bara eins og hann væri að koma heim úr vinnu. Þessi elsta brast í grát og vildi ekki sleppa honum, hún átti erfitt þenn­ an dag með að láta pabba sinn frá sér og deila honum. En brosti fyrir hann, það var brosið hennar stóra bjarta sem yljaði.“ Hraustur og reglusamur Móðir hans segir hann vera góð­ an og traustan vin. „Hann er vinur vina sinna og rækir þá vel og hann á líka fullt af kunningjum.“ Hallgrím­ ur segir hann einstaklega reglusam­ an. „Hann hefur einu sinni á æv­ inni drukkið. Þá fór hann með stóra bróður í partí og drakk smirnoffpela. Hann hefur ekki drukkið eftir það,“ segir hann hlæjandi. Sigríður tekur undir þetta. „Hann hefur aldrei verið í neinni óreglu, ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af honum. Það er frekar hann sem hefur þurft að hafa áhyggjur af mér. Hann hefur alltaf verið skjöldurinn minn. Hann er mjög hraustur og hefur alla tíð stundað íþróttir, hafnabolta, am­ erískan fótbolta, körfubolta og hann er í hjólaklúbb og er alltaf að hjóla í einhverjum torfærum og alls konar. Hann er mjög duglegur og er alltaf að. Hann er dálítið þrekinn, með svona pabbabumbu,“ segir hún hlæjandi. Hagalín Guðmundsson, áhafnar­ meðlimur í björgunarskipinu Ás­ grími, sem hefur starfað með Eiríki Inga segir andlegan og líkamlegan styrk, reynslu og þekkingu hafi bjarg­ að lífi hans. „Eiríkur er einn af okkar félögum í áhöfninni og ég hef ekkert annað um hann að segja en að hann er gríðar­ hraustur náungi og sjómaður fram í fingurgóma. Hann er þrautþjálfað­ ur og hann bregst rétt við.“ Hagalín og Eiríkur Ingi hafa starfað saman á björgunarskipinu í nokkurn tíma. Hagalín segir þá ekki þekkjast mikið persónulega en að hann þekki störf hans og reynslu vel. „Það sem bjargaði honum, núm­ er eitt, tvö og þrjú, er að hann er hraustur. Líkamlega hraustur og andlega sterkur,“ segir Hagalín að­ spurður hvort það hafi verið þjálf­ un sem kom Eiríki Inga til bjargar. „Eiríkur er bæði vel af manni gerður og svo er hann þrautæfður.“ Hagalín bendir á að það fyrsta sem Eiríkur Ingi gerði þegar hann áttaði sig að Hallgrímur SI væri að sökkva var að fara í flotgalla. Vildi ekki endurtaka sig Einlæg og átakanlega frásögn Ei­ ríks í Kastljósinu á miðvikudags­ kvöldið hefur vakið mikla athygli. Móðir hans er stolt af honum og var honum til halds og trausts þeg­ ar þátturinn var tekinn upp. „Ég fékk að sitja þarna til hliðar í Kast­ ljósinu, honum til stuðnings. Ég fylltist svo mikilli virðingu fyrir honum, ég hef auðvitað alltaf virt hann rosalega mikið en ég var bara svo stolt af honum. Hann stopp­ aði ekkert, hann sagði bara frá og ég var ofsalega stolt af því hvernig hann sagði frá. En auðvitað var erf­ itt að hlusta á frásögnina og hug­ ur minn er svo sannarlega hjá að­ standendum þeirra sem fórust og ég sendi þeim alla mína samúð,“ segir Sigríður. Eiríkur vildi segja frá slysinu á þennan hátt. „Hann hafði sagt sín­ um nánustu frá einhverju af þessu en kannski ekki öllum smáatriðum. Ég vissi hvað hann var búinn að vera að hugsa og hvernig hann ætlaði sér að segja alla söguna. Þegar hann myndi hitta fólk þá þyrfti hann ekki að segja öllum það sama. Hann vildi segja öllum frá hvernig þetta hefði verið og hann vildi gera það svona. Hann treysti sér ekki til að tala við marga í einu. Hann er ekki mikið fyrir marg­ menni og á kannski erfitt með að tjá sig fyrir framan fólk sem hann þekk­ ir ekki. En mér finnst hann bara vera svo sterkur.“ n n Móðir Eiríks Inga hafði vonda tilfinningu fyrir ferðinni n Börnin ánægð að fá pabba heim Viktoría Hermannsdóttir blaðamaður skrifar viktoria@dv.is „Þetta var ólýsan- legt. Þegar þau hittust þá voru þessu yngstu bara ánægð að fá pabba heim. Fjölskyldumaður Eiríki er lýst sem miklum fjölskyldumanni. „Uppskrift að góðum pabba,“ segir móðir hans. Mikill baráttumaður Móðir Eiríks lýsir honum sem baráttumanni sem gefist ekki auðveldlega upp.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.