Dagblaðið Vísir - DV - 20.12.2013, Síða 34

Dagblaðið Vísir - DV - 20.12.2013, Síða 34
Jólablað 20.–27. desember 201334 Fólk Viðtal þeim hverfur af sjálfu sér, og hinn er hægt að leysa. Þetta hefur lífið kennt mér. Stundum þarf að þrauka,“ segir Össur og tekur dæmi. „Ég var felldur sem formaður í stjórnmálaflokki þegar hann var á blússandi skriði og tiltölulega skömmu áður búinn að fá um 32% í þingkosningum, og þar áður í sveitarstjórnarkosningum. Margir vorkenndu mér – en ég gerði það ekki. Ég endurskapaði mig, og hremm- ingarnar gerðu mig að sterkari stjórn- málamanni og sterkari einstaklingi. Það að vera „survivor“ er lífsviðhorf sem er hægt að temja sér.“ Erfitt að sitja undir ræðunni Í þessu samhengi er áhugavert að skoða hvernig forsetanum tókst að snúa forsetakosningunum sér í vil. „Hann er efalítið klókasti íslenski stjórnmálamaðurinn á dögum frá því ég fór að fylgjast með pólitík. Í síðustu forsetakosningum var hann með gjörtapað tafl þegar hann sprengdi upp stöðuna og stillti mönnunum upp á nýtt þannig að hann tefldi sjálf- um sér fram sem leiðtoga óánægðs al- mennings. Það skoraði vel andspæn- is óvinsælli ríkisstjórn sem hafði þurft að grípa til afar erfiðra aðgerða eftir þyngsta áfall lýðveldissögunnar. Í frægu Sprengisandsviðtali réðst hann gegn Jóhönnu sem forsætis- ráðherra, Hrannari aðstoðarmanni hennar, ríkisstjórninni – og Þóru Arnórsdóttur – og setti sig markvisst í fararbrodd andstæðinga forystu ríkis stjórnarinnar. Þetta kryddaði hann svo með dassi af ESB-andstöðu. Sprengisandsviðtalið var sannarlega pólitísk klasasprengja. Þetta var ein- hver makalausasta aðgerð sem ég þekki úr evrópskum stjórnmálum, vogaður og ófyrirleitinn háskaleikur – en gekk fullkomlega upp. Hann hefur náttúrulega allt í senn, greind götustráksins, rökvísi háskólapró- fessorsins og langa reynslu úr stjórn- málum. Það er skæð blanda ef menn eiga í höggi við hana.“ Samband þeirra hefur verið eins og önnur sambönd – „það hafa verið uppstyttur,“ segir Össur og hlær. „Við höfum þvælst á pólitísku ferðalagi í grennd við hvorn annan í 30 ár. Ég var eftirmaður hans sem ritstjóri Þjóð- viljans, var í kjarnanum sem undir- bjó kosningu hans sem formanns Alþýðubandalagsins, og gerði hann æfan með því að fara úr þeim flokki. Hann endurgalt það í magnaðri ræðu á Alþingi þegar við lentum þar saman – og var nokkuð erfitt að sitja undir! Einn af starfsmönnum hans sagði einu sinni að ég væri eini maður- inn sem talaði við hann tæpitungu- laust. Það er sannarlega gagnkvæmt. Ég dreg upp af honum margbrotna mynd í Ári drekans, og eftir að hafa lesið upp úr bókinni um allt land hef ég komist að því að þar eru hliðar sem menn þekktu ekki áður – sumar mannlegri og hlýlegri en birtast gegnum fjölmiðlana.“ Fór ekki heim í nokkur ár Talandi um merka stjórnmálamenn, Össur á engar fyrirmyndir, öll goð- in eru löngu fallin af stalli. „Líkast til mótaði það mig helst að mér fannst ég verða snemma fullorðinn og sjálf- bjarga. Ég er elstur fimm systkina, mamma varð töluvert veik þegar ég var mjög lítill,“ segir hann, en móðir hans fékk alvarlegan skjaldkirtils- sjúkdóm sem ekki voru til nægilega góð meðul við á þeim tíma. „En ég fór til ákaflega góðs frændfólks á Mýrarnar þegar ég var fimm ára og var þar í sjö sumur. Það gekk ekki alltaf vel heima og ég var sendur á heimavistarskóla hjá aðventistum sem gerðu mig líklega að manni, ef einhver hefur gert það. Ég var aldrei mikið heima. Pabbi var nokkuð harður meðan ég var að alast upp og stundum voru hendur látnar skipta þangað til ég varð sjálfur sterkur. Hann var hægri sinnaður frímúrari sem trúði á Mogg- ann og fannst Sjálfstæðisflokkurinn vera fulllangt til vinstri. Hann tók því ákaflega illa þegar ég kom heim eftir að hafa verið á sósíalískum togara frá Melrakkasléttu og var orðinn harður jafnaðarmaður. Við deildum talsvert framan af ævi og í fimmta bekk í MR skildi leið- ir og ég kom ekki heim í nokkur ár. Sá mér farborða með sjómennsku og undi hag mínum vel í örlitlu þak- herbergi í Eskihlíðinni. Staðan milli okkar batnaði ekki eftir að ég varð róttækur stúdentaleiðtogi og hann taldi mig verða bæði sér og mér til skammar þegar ég meðal annars stóð sem formaður Stúdentaráðs fyrir hertöku menntamálaráðuneyt- isins og messaði af pöllunum yfir Al- þingi. Svo mildaðist hann með aldr- inum, ég líklega líka, og við urðum að lokum mestu mátar. Þegar hann var orðinn gamall kom hann og sagði að blóð væri þykkara en vatn og tilkynnti mér að hér eftir ætlaði hann að kjósa mig í landsmálunum. Á dauða mín- um átti ég frekar von en því. Til að hafa allt á hreinu bætti hann svo við: „En það skaltu vita drengur minn, að ég fyrirlít jafnaðarstefnuna!“ – Ég er samt eins og hann, glaðvær og hlátur mildur, með vestfirskar kinnar og sterkar skoðanir.“ Féll fyrir borð Það var einmitt á sjónum sem Össur lenti í lífsháska þegar hann féll fyrir borð. Talað er um að lífslíkur manns sem hefur fallið fyrir borð fari hríð- fallandi því lengur sem hann er í sjónum. Hitastig sjávar fyrir utan landið er yfirleitt á bilinu 1 til 6°C. Í þeim kulda gefst naumur tími til björgunar eigi maðurinn að lifa af. Össur fór í sjóinn á Halamiðum, ein- hvers staðar á milli Íslands og Græn- lands og gleymir aldrei kuldanum eða augnaráði þeirra sem reyndu að bjarga honum upp úr ísköldum sjón- um. „Mér var kalt. Það var haust- bræla, þetta var síðasta togið áður en átti að halda í land. Það var vax- andi alda, og í hvert sinn sem kall- arnir náðu taki á mér var slynkurinn af öldunni svo mikill að þeir héldu ekki takinu. Það er erfitt að gleyma einbeitninni í svipnum á þeim þegar ég horfði á þá upp úr sjónum og lík- lega gleymi ég aldrei stingandi bláu augnaráði Kristjáns Kristjánssonar, sem náði loks taki á hárinu á mér um leið og kallarnir héngu á öðrum handleggnum. Loftið í sjóstakknum hélt mér á floti, en ég var það þrekaður að klofstígvélin liðu niður í djúpið. Áfallavörn náttúrunnar er merkileg og við svona aðstæður verður maður æðrulaus og hálfvegis eins og áhorf- andi, og svo pakkar hún þessu ein- hvers staðar mjög djúpt niður. Ég fór ekki að muna þetta almennilega fyrr en hátt á annan áratug síðar. „Helvíti munaði litlu,“ sagði Grétar, skipstjór- inn í túrnum og bróðir Kristjáns, þegar við hittumst áratugum síðar og hann faðmaði mig í mannþröng.“ Mætti bjargvættinum Löngu seinna varð Össur umhverfis- ráðherra og vildi ekki leyfa Ísfirðing- um að byggja upp í Tungudal eftir snjóflóð. „Bæjarstjórnin kallaði mig á fund vestur, og messaði yfir mér. Ég reif kjaft, en á móti mér sat maður sem horfði niður í borðið þangað til hann allt í einu leit upp, sló hnefan- um í borðið og sagðist ekki hafa verið að draga mig hálfdauðan upp úr Hal- anum til að ég gerði sér þetta. Þá sá ég aftur þessi stingandi bláu augu. Það var bjargvættur minn,“ segir Öss- ur þar sem hann situr í horninu sínu í sófanum í stofunni. „Einhverju sinni varð ég veður- tepptur á Ísafirði, rétt orðinn þing- maður, og Matthías Bjarnason, þing- maður og fyrrverandi ráðherra, kom þá niður á hótel. Hann réð þá öllu um Vestfirði. Matthías spurði mig hvort rétt væri að útgerðin hefði ekki einu sinni bætt mér stígvélin sem fóru í Halann. Ég kvað það rétt og þá hringdi hann umsvifalaust í út- gerðina, sem þá var enn á dögum, og krafðist þess að þeir útveguðu eina koníaksflösku fyrir hvort stíg- vélið. Þeir reiddu flöskurnar glaðir af hendi, og þær drukkum við Matthías um nóttina með nokkrum öðrum þingmönnum. Svo var það fyrir nokkrum árum að ég var að sumarlagi með mínum kon- um á leið í Dýrafjörðinn, og kom við í stórafmæli merks framsóknarmanns, vinar míns Egils Heiðars Gíslasonar á Súðavík, en þar var skipið skráð. Í lok afmælisins sagði Egill að í salnum væri staddur maður sem Súðvíkingar ættu gamla skuld að gjalda. Ég varð heldur betur hissa þegar hann kallaði mig á svið og færði mér stóran pakka. Það reyndust vera stígvél í stað þeirra sem ég missti í sjónum.“ Á meðan hann talar læðist ljós- grár köttur í fangið á honum. Það er hún Perla, systir hans Kára, sem er ekki eins mannblendinn og er hér einhvers staðar í felum. Kári og Perla komu í stað kisu sem fjölskyldan átti í áraraðir áður en hún lenti undir bíl hér fyrir utan. „Það var mikil sorg,“ segir Össur. Beið í tíu ár eftir barni Birta, eldri dóttur Össurar, sest við hlið hans. Ég spyr hvernig pabbi hann sé og hún brosir, setur þumal- inn upp og segir einfaldlega „góður“, þau séu góðir vinir. Hún hefur hins vegar engan áhuga á pólitík en þeim mun meiri áhuga á fólki og samfé- lagsmálum. „Ég segi stundum við hana að það sé pólitík,“ segir Össur. Birta er 19 ára MR-ingur sem dreymir um að fara til Kólumbíu eftir útskriftina. Pabbi hennar tekur það ekki í mál að hún fari ein, en vonast til að þau geti farið öll þangað saman fyrr en seinna. Systurnar voru báðar ættleiddar frá Kólumbíu á fyrstu mánuðum ævi sinnar. „Við vorum 20 ár í barnlausu hjónabandi – sem tölfræðin segir að eigi ekki að ganga – og búin að fara í gegnum glasó og allt bixið nokkrum sinnum,“ segir Össur. „Það tók tíu ár að fá Birtu. Þetta var fyrir daga almennilegra fjarskipta og ég held ég hafi skrifað á fleiri en 50 staði. Frá Bógóta í Kólumbíu kom allt í einu jákvætt svar. Það kom seinna í ljós að konunum sem þar réðu fannst merkilegt að ættleiða til landsins sem þær töldu jólasveininn koma frá. Þetta var eins og í sögu eftir kól- umbíska höfundinn Gabriel García Márquez. Við urðum uppnumin, skrifuðum reglulega, en þá báðu þær okkur að vera ekki að trufla sig með stöðugum bréfaskriftum, barnið kæmi. En það kom ekki. Ég gafst ekki upp, fór niður eftir og mætti á staðinn. Þá ráku þær upp stór augu og sögðu: „En þið hættuð að skrifa!“ Það endaði með því að þær lofuðu að við fengjum dóttur eftir nokkra mánuði – og sögðu að hún myndi líta út eins og ég. Allt stóð það heima. Birta var breiðleit, með vestfirskar kinnar, og var sannarlega lík mér. Það breyttist allt með aldr- inum og hún gengur og talar eins og mamma hennar meðan Ingveldur hefur tekið frá mér list hins kotroskna tilsvars.“ Tók andköf þegar hann sá hana Össur segir að heimkoman með Birtu hafi einnig verið eftirminnileg. „Norðanbylur og snjór tók á móti okkur – fyrir utan fjölmiðlager. Mér er minnisstætt að hún gretti sig á móti hvoru tveggja. Ég var umhverfisráð- herra sem hafði horfið úr miðjum fjárlögum – og núverandi ritstjóri DV tók eftir því. Svo það vissu allir af þessu þegar við komum. Barnleysi var miklu meira tabú þá en nú, og Íslensk ættleiðing bað okk- ur að lyfta ættleiðingum og tala við fjölmiðla. Núverandi kollegi minn, Elín Hirst, gerði Birtu að frægasta barni ársins með því að gera hana að Manni vikunnar á Stöð 2. Það voru ógleymanlegar stundir þegar við fengum þær í hendur. Ég tók andköf þegar ég sá Ingu í fyrsta sinn í Bógóta – hún var svo fríð. Þær hafa náttúrulega gert líf okkar Árnýjar allt öðru vísi og dásamlegra. Það er eins og þetta hafi alltaf átt að vera svona.“ Börnin hópuðust að þeim Barnaheimilið sem stelpurnar voru á var gamalt og virðulegt og vel var hugsað um börnin sem þar voru. „Þetta var á tímum borgarastyrjaldar. Þá voru sex eða sjö skæruliðasveitir í Bógóta, nú er bara ein eftir. Í sumum tilfellum fóru foreldrarnir frá börn- unum og oft voru aldraðar ömmur einar eftir með barnaskara sem þær gátu ekki alið önn fyrir. Þá fóru þær með börnin á barnaheimilið. Þarna voru því mjög mörg börn og á öllum aldri. Þau vissu það öll að þangað komu foreldrar sem vildu ættleiða börn og þegar þú komst þangað þá hópuðust þau að þér. Það var mjög sterk upplifun,“ útskýrir Össur. Ekkert var þó eins sterkt og að fá barnið í fangið. „Ég gleymi því aldrei,“ segir Össur en sú stund er greypt í huga hans. Í seinna skiptið fór Birta þó og sótti systur sína. „Þá fórst þú inn á vöggustofuna þar sem við sáum þig í fyrsta skipti og náðir í hana. Þá varst þú fimm ára. Það var mjög fal- legt,“ segir hann og hún tekur undir það. Þau hjónin voru hvött til þess að halda sterkum tengslum við Kólumbíu og hafa eignast góða vini þaðan sem hafa komið hingað til lands. Þá segist hann alltaf hafa tíma, hvað sem á gengur, til að liðsinna mönnum í ætt- leiðingarvangaveltum, og gefa þeim ráð eða veita þeim hvaða hjálp sem þeir þurfa á að halda. „Menn draga oft svo lengi að fara í ættleiðingarferlið, reyna öll ráð önnur, en mín ráðlegging er alltaf að byrja á því sem fyrst – og halda samhliða því áfram að reyna önnur ráð ef þeir kjósa. Tíminn líður svo hratt, og allt í einu eru menn orðn- ir of gamlir til að fá að ættleiða, og ekki hægt að sigla í þá höfn. Því fyrr sem menn byrja – því betra.“ Tjáir væntumþykjuna Síminn hringir enn á ný. Össur þarf að drífa sig niður á þing. Að lokum segist hann vonast til þess að: „hafa átt svolítinn þátt í að hafa gert gott samfélag betra, eiga þokkalegan orðstír en mest af öllu vildi ég skilja eftir tvær dætur í góðum málum. Þær eru náttúrulega kraftaverkin í mínu lífi. Mér finnast þær afar vel lukkaðar stelpur. Það voru ekki miklar tilfinningar í mínu uppeldi og ég spara ekki að segja þeim hvað ég er ánægður með þær og hversu vænt mér þykir um þær. Ég læt samt ekki allt eftir þeim og reyni að undirbúa þær fyrir það sem ég veit af reynslunni – að lífið er ekki bara dans á rósum. Svo er ég bara eins og aðrir feður, sýp hveljur þegar þær koma seint heim, og tuða þá svo- lítið um öll vítin sem mér tókst ekki að varast,“ segir hann hlæjandi áður en við kveðjum. n „Í hvert sinn sem kall- arnir náðu taki á mér var slynk- urinn af öldunni svo mikill að þeir héldu ekki takinu Féll fyrir borð Össur fór í sjóinn á Halamiðum. Hann gleymir aldrei augna- ráði skipsfélaga sinna, kuldanum í sjónum og æðruleys- inu sem hann fylltist þegar hann lá þar bjargarlaus. Mynd sigTryggur ari

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.