Úr þjóðarbúskapnum - 01.02.1965, Blaðsíða 13
UM ÁÆTLUNARGERÐ
hann til þess að framkvæma þá stefnu eins
og áætlunin lýsti. Þannig er þessu einnig varið
í öðrum löndum, þar sem svipaður opinber
stuðningur við einkaframkvæmdir er þýðing-
armikill, svo sem í Frakklandi og í Noregi.
En hér á landi gegnir öðru máli. Tækið er
ekki notað. Lán úr fjárfestingarsjóðum eru
veitt eftir vélrænum, ósveigjanlegum reglum.
Til sumra tegunda framkvæmda er hægt að
fá ótakmörkuð lán, til annarra engin.
Framtíð áætlunargerðar hér á landi
Þær sérstöku aðstæður, sem hér að framan
hefur verið lýst, gera það að verkum, að hlut-
verk áætlunargerðar hlýtur að vera mjög tak-
markað hér á landi og miklu takmarkaðra en
það er í nálægum löndum. Framtíð áætlunar-
gerðar hér á landi er undir því komin, hvaða
breytingar geta orðið á þessum aðstæðum. I
fyrsta lagi, að hve miklu leyti, og á hve
skömmum tíma geta einingar efnahagslífsins
eflzt og styrkzt, bæði þær, sem eru innan ríkis-
geirans, og þær, sem eru utan hans. í öðru lagi,
að hve miklu leyti og á hve skömmum tíma er
hægt að smíða þau tæki, sem í öðrum löndum
eru notuð við stjórn efnahagsmála, og læra að
beita þeim tækjum. Hvorugt af þessu getur
skeð skjótt, en það getur skeð hægt og hægt, og
að þeirri þróun er hægt að stuðla með margvís-
legu móti, þar á meðal með áætlunargerðinni
sjálfri. Til þess, að þróunin geti gengið í þessa
átt með nokkrum hraða, þarf þó umfram allt
pólitískan vilja. Sá vilji er á hinn bóginn að
verulegu leyti ávöxtur almenns þjóðfélags-
þroska.
Niðurlagsorð
Ég hefi hér að framan reynt að gera nokkra
grein fyrir eðli áætlunargerðar og þeim jarð-
vegi, sem hún er sprottin upp úr á Vestur-
löndum. Ég hefi enn fremur reynt að gera í
stórum dráttum grein fyrir þeirri reynslu, sem
hér á landi hefur fengizt af áætlunargerð. Ég
vil nú reyna að draga saman í örstuttu máli
skoðanir mínar á hlutverki áætlunargerðar hér
á landi.
Þau markmið, sem stefnt er að í íslenzkum
efnahagsmálum, eru þau sömu eins og í ná-
lægum löndum: full atvinna, ör hagvöxtur
samfara efnahagsjafnvægi, félagslegt öryggi,
réttlát tekjuskipting. A hinn bóginn hefur
okkur íslendingum gengið ver en öðrum ná-
lægum þjóðum að ná heilbrigðu jafnvægi á
milli markmiðanna og haga sókninni í áttina til
þeirra á skipulegan og hagkvæman hátt. Það
er eðlilegt, að menn spyrji, hvort áætlunar-
gerð geti ekki hér eins og annars staðar verið
þýðingarmikið hjálpartæki í sókninni að þess-
um markmiðum, og þeirri hugsun geti jafnvel
skotið upp, að hún geti að verulegu leyti verið
lausnin á þeim vandamálum, sem við höfum
svo lengi verið að glíma við. Jafnframt því,
sem menn gera sér vonir um gagnsemi áætl-
unargerðar, skiptir miklu máli, að menn meti
á raunsæjan hátt þá erfiðleika, sem beitingu
hennar eru samfara. Þeir erfiðleikar eru í eðli
sínu þeir sömu og þeir erfiðleikar, sem við
höfum verið að glíma við í efnahagsmálum
yfirleitt. Einingar hins íslenzka efnahagskerfis
eru veikar og lítt þroskaðar, og þá ekki síður
það ríkisvald, sem á að leiðbeina þessum ein-
ingum og samræma starfsemi þeirra. Aætlun-
argerðin sem slík getur ekki bætt upp þessa
veikleika. Þroskaferillinn er langur og erfiður,
hvort sem maður eða þjóðfélag á í hlut, og á
þeim ferli er ekki hægt að stytta sér leið með
neinum töfrabrögðum. Aætlunargerð, sem
beitt er af forsjá og skilningi, getur hins vegar
stuðlað að auknum styrkleika. Hún getur verið
liður í viðleitninni til almenns þroska.
3
11