Öldrun - 01.05.2007, Blaðsíða 11

Öldrun - 01.05.2007, Blaðsíða 11
11 ÖLDRUN – 25. árg. 1. tbl. 2007 www.oldrun.net ans, en þessa ástæðu má einnig tengja umræðu Amerys um angistina yfir sífellt harðnandi straumi tímans. Gegn ógn dauðans færir Cíceró eftirfarandi rök: „Hann ber að virða að vettugi ef hann slekkur vitundina fyrir fullt og allt, en þeim sem trúa því að hann búi henni einhvers staðar eilíft líf ber að fagna honum. Ekki er um þriðja kostinn að ræða.“15 Sjálfur trúir hann því að sálin sé ódauðleg og hlakkar til að hitta fyrir bæði ástvini og ýmis stórmenni þegar þar að kemur. „En ef nú sú trú mín er röng að sál mannsins sé ódauðleg, þá er mér ljúft að skjátlast og vil ekki láta svipta mig þeirri hugþekku tálsýn unz yfir lýk­ ur.“16 Æðruleysi Cícerós gagnvart dauðanum tengist einnig hugmynd hans um sívaxandi andlegan þroska æv­ ina á enda: „Líkt og átak þarf til að slíta óþroskaða ávexti af trénu en þeir falla sjálfkrafa til jarðar er þeir hafa náð fullum þroska, þannig eru ungir menn sviptir lífi með valdi en öldungurinn deyr er fullum þroska er náð. Ég fyrir mitt leyti fagna því, og er dauðinn nálgast finnst mér ég kom­ inn í landsýn þar sem ég muni innan tíðar taka höfn að lokinni langri sjóferð.“17 Ályktanir Hvert hafa þessar hugleiðingar leitt okkur? Mér virðist að málsvörn Cícerós fyrir ellina feli í sér sterk rök fyrir því að öldrun geti verið farsæl og einnig vísbendingar um hvað stuðli helst að farsælli öldrun. Þeir eldast farsællega sem eiga sér raunveruleg hugðarefni og sinna þeim af krafti. Hugðarefnin þurfa helst að nýta þá hæfni sem aldraðir búa yfir og geta þroskað með sér svo lengi sem þeir lifa. Meðal slíkrar hæfni eru viska og dómgreind, en líka hvers kyns andleg iðja, samræður, listir og handverk. Farsæl öldrun veltur einnig á því að fólk sé sátt við eigin líkama og ekki fast í neins konar fortíðarþrá. Loks einkennist farsæl öldr­ un af æðruleysi gagnvart dauðanum, hvort sem það bygg­ ist á trú eða skynsemi. Það sem ef til vill vantar inn í þessa mynd er mikilvægi góðra félagslegra tengsla annars vegar og góðrar teng­ ingar við sjálfan sig hins vegar. Rannsóknir sýna að þeir sem lifa og hvað lengst og eru virkastir fram í andlátið er fólk sem á traustan vinahóp og hefur löngun til að læra nýja hluti.18 Einnig eru vísbendingar um að ekki sé hægt að stytta sér leið að hamingjunni í gegnum yfirborðslega ánægju sem fæst til dæmis af því að borða sætindi, njóta kynlífs án ástar, versla eða horfa á sjónvarpið, heldur verði hver og einn að finna og virkja sína eigin drifkrafta. Bertr­ and Russell sagði í sjálfsævisögu sinni að þrjár ástríður hafi knúið sig áfram í lífinu: Ástarþrá, þekkingarþrá og óbærileg samúð með þjáningum annarra. Þegar þessir drifkraftar réðu ferðinni fannst honum án efa að líf hans snerist um það sem máli skipti og að hann ætti skilið þá vellíðan sem fólst í því að fá það sem hann þráði. Sú vellíð­ an sem felst í svölun yfirborðslegra eða tilbúinna langana er hins vegar innantóm; hún leiðir til þunglyndis og ang­ 15 Um ellina, bls. 78. 16 Um ellina, bls. 88. 17 Um ellina, bls. 80. 18 John W. Rowe og Robert L. Kahn, Successful Aging (New York: Pantheon Books, 1998). istar yfir tilgangsleysi lífsins. Á endanum getur það ráð­ ið úrslitum um farsæla öldrun að eiga sér raunverulegar ástríður eða hugðarefni og sinna þeim eftir því sem mögu­ legt er. Nauðsynlegt skilyrði þessa er að hver og einn hafi svigrúm og tækifæri til að rækta eigin áhugamál og jafnvel uppgötva ný. Aðeins þannig geta drifkraftar hvers og eins fengið að njóta sín svo lengi sem hann lifir, því það sem hentar einum vel og veitir honum lífsfyllingu getur verið tilgangsleysi og leiðindi í augum þess næsta. Skilyrði farsællar öldrunar („successful aging“) hafa á síðustu áratugum orðið æ umsvifameira viðfangsefni rann­ sókna í öldrunarfræðum.19 Slíkar rannsóknir eru að hluta til empirískar en felast einnig í tilraunum til að útskýra hvað skuli teljast farsælt eða eftirsóknarvert líf á efri árum. Ólík sjónarmið hafa komið fram í því efni. Um 1960 var (í fullri alvöru) sett fram kenning um að farsæl öldrun felist í því að draga sig í hlé og lifa friðsælu og áreynslulausu lífi. Upp úr 1970 komu nýjar kenningar fram. Ein var sú að farsæl öldrun felist ávallt í virkni og vinnusemi, en önnur lagði áherslu á samfellu í venjum, lífsstíl og félagstengslum þegar miðaldra fólk kemst á efri ár. Á 9. áratugnum urðu margir til að benda á mikilvægi sjálfræðis og sjálfstæðis hins aldraða og á þeim 10. hafa birst fjölmargar útgáfur af því meginstefi að farsæl öldrun felist í því að hver ein­ staklingur finni og rækti sína eigin styrkleika og hrindi möguleikum sínum í framkvæmd. Á sama tíma hefur ver­ ið bent á að fólk með skerta líkamlega eða andlega færni geti einnig notið farsældar, til dæmis í nánum tengslum við fjölskyldu og í trúarlegri reynslu. Kenningar og um­ ræða um hugtakið farsæl öldrun hefur haldist í hendur við empirískar rannsóknir á því hvaða skilyrði tengist þeim þáttum sem telja má eftirsóknarverða. Röð athyglisverðra langtímarannsókna hefur meðal annars styrkt þá skoðun að farsæl öldrun hvíli á þremur undirstöðum: Virkri þátt­ töku í lífinu sjálfu, góðri heilsu og góðri andlegri og lík­ amlegri getu.20 Þegar á heildina er litið virðist þróun kenninga og rannsókna í öldrunafræðum benda til að það hugarfar sem Cíceró boðar og færir rök fyrir reynist okkur farsælla þegar árin færast yfir heldur en sú bölsýni og angist sem lesa má úr ritgerðum Amerys. Sjálfsfirring, vantrú á eigin möguleikum, skortur á samfélagslegu hlutverki og van­ máttur til að fylgjast með nýjungum og hræringum; þetta eru ógnir sem steðja að okkur á öllum æviskeiðum, ekki bara á efri árum. Farsæld okkar veltur á því hvernig okkur tekst að bregðast við slíkum ógnum, hver svo sem aldur okkar kann að vera. Þeir virðast stuðla að eigin farsæld sem sættast við eigin líkama, rækta eigin styrkleika og áhugamál, taka að sér hlutverk (t.d. í sjálfboðavinnu eða félagsstarfi) og gera sér grein fyrir fáfengileika þess að eltast við hverfular nýjungar. 19 Lucille B. Bearon, “Successful Aging: What does the “good life” look like?” The Forum For Family & Consumer Issues, NC State Univer- sity 1,3. http://www.ces.ncsu.edu/depts/fcs/pub/aging.html. 20 Rowe og Kahn, Successful Aging.

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.