Öldrun - 01.05.2007, Blaðsíða 25

Öldrun - 01.05.2007, Blaðsíða 25
2 ÖLDRUN – 25. árg. 1. tbl. 2007 www.oldrun.net Sálfræðingar og öldrunarþjónusta Berglind Magnúsdóttir sálfræðingur Sálfræðiþjónustu LSH, Landakoti Öldrunarsálfræði er sú grein sálfræðinnar sem snýr að rannsóknum og skilningi á öldrun. Öldrunarsálfræðingar starfa með heilbrigðum öldruðum sem þarfnast aðstoðar vegna þátta sem ógna eða hafa veruleg áhrif á líf þeirra og aðstæður og einnig með andlega sem líkamlega veik­ um öldruðum einstaklingum. Sálfræðingar sem starfa við öldrunarþjónustu hér á landi eru ekki margir, enda hvorki mikil né löng hefð fyrir því að íslenskir sálfræðingar sér­ mennti sig í öldrunarsálfræði. Geronto, gríska orðið fyrir gamall, er það forskeyti sem notað er til að gefa til kynna öldrunaráhersluna innan sálfræðinnar. Á dönsku er talað um gerontopsykologi og á ensku gerontopsychology. Hér á landi hefur forskeytið öldrunar fyrir framan sálfræðing­ ur, öldrunarsálfræðingur, fest sig í sessi að nokkru leyti þó strangt til tekið megi íslenskir sálfræðingar ekki kalla sig öldrunarsálfræðinga, þar sem ekki er hægt að öðlast sérfræðingsréttindi í greininni hér á landi. Sálfræðingar sem sinna öldruðum hér á landi starfa á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, á vegum félagsþjónustu sveitafélags og einnig á eigin sálfræðistofu auk þess að sinna rann­ sóknum, háskólakennslu og fræðslu á ýmsum vettvangi. Skipta má starfssviði og sérmenntun þeirra sálfræðinga sem koma að öldrunarþjónustu hér á landi í taugasálfræði og klíníska öldrunarsálfræði. Á öldrunarsviði Landspít­ ala­háskólasjúkrahúss á Landakoti hefur verið ein staða klínísks öldrunarsálfræðings frá árinu 1997 er greinar­ höfundur hóf störf. Starfið þar felst í þverfaglegri vinnu með öðrum stéttum þar sem megin áhersla er á sálfræði­ meðferð, stuðningsviðtöl við aðstandendur og ráðgjöf til starfsfólks. Auk þess má nefna greiningarvinnu, sorg­ arvinnu, fjölskylduráðgjöf, handleiðslu annarra fagstétta og vinnusálfræðileg aðkoma fyrir deildir og einingar. Notk­ un hugrænnar atferlismeðferðar hefur aukist hjá þessum aldurshópi sem og meðal annarra og hefur notkun þeirrar meðferðar skilað góðum árangri. Nokkuð löng hefð er fyrir taugasálfræðilegri þjónustu á öldrunardeildum sjúkrahúsa. Á Landakoti og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefur, frá ársbyrjun 1995, verið veitt taugasál­ fræðileg þjónusta og nú starfar doktor María K. Jónsdótt­ ir á Landakoti í fullu starfi, einkum við taugasálfræðilega greiningu á minnismóttökunni. Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri starfar doktor Þuríður J. Jónsdóttir sem sinnir mati á öldruðum og öðrum aldurshópum. Annar starfsvettvangur öldrunarsálfræðinga er hjúkr­ unarheimili en aðeins á einu þeirra, Droplaugarstöðum, er starfandi sálfræðingur í 20% starfi. Einn öldrunarsálfræð­ ingur, Líney Úlfarsdóttir, vinnur á vegum Reykjavíkurborg­ ar á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Starfið felst í verkefnastjórnun vegna félagslegrar heimaþjónustu og annarri þjónustu fyrir aldraða í þeim bæjarhluta. Þriðji starfsvettvangur sem öldrunarsálfræðingur starfar á er á eigin stofu en doktor Erla Sigríður Grétarsdóttir, sem er fyrsti íslenski doktorinn í öldrunarsálfræði, tekur þar á móti fólki til meðferðar og greiningar. Öldrunarsálfræði er spennandi fag sem gefur mögu­ leika á ýmsum rannsóknum og sérverkefnum því fagið er ungt hér á landi og áhugi þjóðfélagsins á öldrun fer vax­ andi ár frá ári. Æskilegt væri að sjá fleiri stöður öldrunar­ sálfræðinga á hjúkrunarheimilum og á heilsugæslu­ stöðvum. Í nánustu framtíð sér fyrir endann á bið eftir öldrunargeðdeild sem staðsett verður á Landakoti og mót­ töku í tengslum við deildina. Fastlega má gera ráð fyrir að næstu stöður öldrunarsálfræðinga verði innan þeirrar starfssemi.

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.