Són - 01.01.2007, Page 42
KRISTJÁN EIRÍKSSON42
Í kór Hvalsneskirkju má sjá máðan legstein sem Hallgrímur hefur
höggvið til á leiði Steinunnar. Hefur Snorri Hjartarson minnst ljóðs
og steins í kvæði sínu „Á Hvalsnesi“ en því lýkur svo:
Sé hann hagræða hellunni á gröf
síns eftirlætis og yndis
og ljóðið og steinninn verða eitt
Ég geng út í hlýjan blæinn
og finnst hafið sjálft ekki stærra
en heilög sorg þessa smiðs.
Nokkrar þjóðsögur greina frá skiptum feðginanna. Þannig segir í Gesti
Vestfirðingi:
Eitt sinn þá verið var að tala um Brönu, eður Brönurímur voru
kveðnar, er sagt að mærin hafi kastað fram þessari hendíngu:
„Ei var Brana vizku vana vægðar mjó,“ en faðir hennar bætti
við: „föðurbana höldar hana héldu þó.“ Það er og sagt að þessa
stöku kvæði hún ein:
Á mér skór ekki tollað getur,
illa fór, eg skal binda’ hann betur.24
Hallgrímur fékk veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd árið
1651 og tók þá veraldlegur hagur hans mjög að vænkast og þar orti
hann sín frægustu verk: Passíusálmana og kvæðið Um dauðans
óvissan tíma. Á seinni árum sínum þar mætti hann þó nokkru
mótlæti. Haustið 1662 brann bærinn og nokkru síðar, 1665 eða
1666, segir Vigfús Jónsson, varð Hallgrímur líkþrár. Árið 1669 lét
hann af prestskap og flutti að Kalastöðum og bjó þar í tvö ár en fór
síðan að Ferstiklu þar sem hann dó 1674 hjá Eyjólfi syni sínum.
Guðríður lifði mann sinn. Var hún fyrst eftir dauða hans á Ferstiklu
í skjóli Eyjólfs, sonar þeirra, en eftir að hann dó 1679 fór hún að
Saurbæ til séra Hannesar Björnssonar og þar andaðist hún 1682, 84
ára gömul.
Af framansögðu er ljóst að ævi Hallgríms var engin venjuleg
24 Gestur Vestfirðingur (1855:84–85).