Són - 01.01.2007, Page 44
KRISTJÁN EIRÍKSSON44
Og létti ekki þeirri kveðandi fyrr en lokið var „Historíu pínunnar og
dauðans drottins vors Jesú Kristí.“25
Árið 1662 brann bærinn í Saurbæ og voru tildrög þess þau, segir
þjóðsagan, að illhryssings karl, sá er nefndur var Ólafur skoski, kom
að Saurbæ og bað Guðríði gistingar en Hallgrímur var þá á engjum
með vinnufólki sínu. Ólafur bað Guðríði að gefa sér skæði en hún
kvað þau ekki til vera. Snerist þá í karli og sagði hann að maklegt væri
að þau brynnu þá upp ef til væru. Þykknaði þá og í Guðríði og mælti
hún að slíkt væri tilvinnandi ef hann brynni með. Nóttina eftir brann
bærinn og björguðust allir nema Ólafur skoski. Hann brann inni og
var bruninn kenndur bölbænum Ólafs og Guðríðar. Svo voru vin-
sældir Hallgríms þá orðnar miklar að hann gat með hjálp góðra
manna reist bæ sinn aftur úr rústum það sama haust.26 Píslarsaga
Hallgríms fullkomnast svo með líkþrá skáldsins undir lokin en á
banasænginni orti hann einhverja sína hjartnæmustu sálma.
Líklega hefur Hallgrímur þroskast hvað mest á Suðurnesjaárun-
um. Þar missti hann sitt „eftirlæti og yndi“ en slekkur harm sinn með
trausti á friðþæginguna „þar lífsvonin eina var samtvinnuð krossinum
rauðum“, svo vitnað sé til Jóns Helgasonar. Og líklega hefur á þess-
um árum rótfest með Hallgrími fyrirlitning á drambsemi og trúin á
manngildið, óháð auði og metorðum. Í þeirri trú fólst ekki bein krafa
um jöfnuð í þessu lífi en í henni fólst þó að á engan skyldi halla eða
líta niður á vegna stöðu sinnar og efnahags. Fyrir dauðanum urðu
loks allir jafnir því „reyr, stör sem rósir vænar reiknar hann jafn-
fánýtt“. Og Hallgrímur verður umfram allt skáld dauðans og um leið
skáld „lífsvonarinnar einu“ og þar með það skáld sem fylgt hefur
flestum Íslendingum síðasta spölinn.
HEIMILDIR
Gestur Vestfirðingur = „Saga frá Hallgrími presti Péturssyni skáldi.“ 1855.
Gestur Vestfirðingur. Fimmta ár. Kaupmannahöfn:37–94.
Magnús Jónsson. 1947. Hallgrímur Pétursson. Æfi hans og starf. I. Reykja-
vík.
Matthías Jochumsson 1956. Ljóðmæli. Fyrra bindi. Reykjavík.
25 Þannig heyrði ég söguna í æsku en sagan og vísan eru til á prenti í misjöfnum
gerðum.
26 Gestur Vestfirðingur (1855:78).