Són - 01.01.2007, Page 63
„ALDURHNIGINN FÉLL Á FOLD“ 63
Og hér var líka í tíma hafist handa
svo haustsins skuggar vinni ei framar tjón.
Við sömdum oss að siðum stærri landa,
þó sýnist lítið okkar gamla Frón.
Í fjallaþröng á fossinn afl til dáða
og fjötra lætur það að geði manns,
en hendur, vit og vilja þarf til ráða
að veita í réttar áttir krafti hans.
Og það var gert – og því fer líka betur
að þar með trúrri hönd var gengið frá.
Við látum fossins ljós í allan vetur,
um leið og næturmyrkrið dettur á,
oss lýsa stöðugt, bæði úti og inni,
og ýmsum skuggaverkum bægja frá.
Það hefir vakað fyrir forsjóninni
er fossinn bjó hún til í þessa á.
En þótt oss finnist þeirri byrði að halda
sé þungt, og ljósið dýru verði keypt,
við skulum ekki æðrast eða halda,
að okkur með því sé í vanda steypt.
Nei, hér á ferðum víst er enginn voði
er viljans kraftur sín þar notið fær
því ljósið nýja er fagur fyrirboði
um framtíð bjarta er styður þessi bær.
Og þökk sé öllum þeim, sem að því unnu
að upp er lýstur bærinn vor í kvöld
og sem úr ánni ljósaljómann spunnu
sem lifir sjálfsagt þessa og næstu öld.
Já, þökk og heiður, vinir vorir góðu,
á vegferð ykkar skíni ljósa her
sem rjúfi hverja meini þrungna móðu.
Svo mælum allir, sama huga, vér.