Són - 01.01.2007, Page 67
Heba Margrét Harðardóttir
„Nú heyri’ eg minnar
þjóðar þúsund ár“
Um sonnettukveðskap Jakobs Smára1
Um æviferil skáldsins
Jakob Jóhannesson Smári fæddist að Sauðafelli í Miðdölum í Dala-
sýslu þann 9. október 1889. Foreldrar hans voru Jóhannes L. L.
Jóhannsson prestur og Steinunn Jakobsdóttir. Jakob gekk að eiga
Helgu Þorkelsdóttur, bónda í Álfsnesi á Kjalarnesi, árið 1910 og lifði
hún eiginmann sinn en hann lést árið 1972. Þau eignuðust tvö börn.
Jakob var settur til náms til séra Jóns Árnasonar í Otradal vestra.
Hann lauk inntökuprófi í Lærða skólann árið 1902 eftir þriggja ára
nám hjá séra Jóni.2 Jakob lauk stúdentsprófi árið 1908 og eftir það fór
hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í norrænum
fræðum og lauk meistaraprófi frá Hafnarháskóla árið 1914. Að námi
loknu kom hann heim og fékkst við kennslu og blaðamennsku um
skeið, var meðal annars ritstjóri Landsins, blaðs Sjálfstæðismanna, frá
1916 til 1919. Hann var í íslensku orðabókarnefndinni frá árinu 1918
til 1920 en þá gerðist hann íslenskukennari við Menntaskólann í
Reykjavík og gegndi því starfi við góðan orðstír til ársins 1937 en
varð þá að láta af störfum vegna veikinda og komst ekki til heilsu eftir
það. Jakob ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og kom úrval greina
hans út í bókinni Ofar dagsins önn árið 1958. Hann samdi merkar
kennslubækur í íslensku, gaf út Íslenzka setningafræði árið 1920, bók um
málfræði, íslensk-danska orðabók og eftir hann liggja fjölmargar
þýðingar á skáldsögum auk fleiri verka.
1 Grein þessi er unnin upp úr B.A.-ritgerð minni við Háskóla Íslands í maí 2005. Í
greininni verður ekki dvalist við uppruna, sögu og þróun sonnettunnar. Um það
hefur margt verið ritað (sjá t.d. Hjörtur Marteinsson 1996 og grein hans í Són 4,
„Gullbjartar titra gárur blárra unna“.
2 Matthías Jóhannessen (1978:91).