Són - 01.01.2007, Blaðsíða 84
HEBA MARGRÉT HARÐARDÓTTIR84
ákvarðar tíma kvæðisins. Í öðru erindi er áhersla lögð á söguna og
þjóðina: eitt sinn – allra – ótti; eins og – ólgusjár – allir. ,Eitt sinn‘
minnir okkur á fortíðina og Þingvellir voru staður ,allra‘. Athyglisvert
er að sérhljóðar einkenna alla stuðlun í þessari ferhendu. Spennan er
byggð upp með ,ó‘-hljóðinu í orðunum ,ótti‘ og ,ólgusjár‘ og jafnframt
er áhersla lögð á samlíkinguna við ólgusjóinn. Orðið ,allir‘ er látið
stuðla tvisvar, í síðara skiptið er það hluti af samlíkingunni: „allir
landsins straumar“. Lesandinn fær því skýra mynd af þjóðinni er hún
kemur saman á Þingvöllum. Þriðja erindið stuðlar fyrst á grimmd –
göfgi, orðum sem tengja saman miklar andstæður. Höfuðstafur í næstu
línu er á orðinu geymist. Það hæfir vel því að í orðunum ,grimmd‘ og
,göfgi‘ felast sögulegir atburðir sem hent hafa á Þingvöllum. Seinni
hluti erindisins segir að tíminn hefur skapað ákveðinn jöfnuð milli
tötraþrælsins og höfðingjans. Lokalínurnar stuðla síðan með önghljóði
eins og fyrsta erindið: þjóðar – þúsund – þyt, og sama kyrrðin ríkir
og þar. Stuðluðu orðin leggja áherslu á allt kvæðið í senn og minningin
um þjóðina og þúsund ár hennar sem heyrist eins og þytur í laufi
stendur eftir í huga lesandans.
Æskuþrá
Á æskustöðvunum26
Nýtt vatn úr brunni lífsins eys ég æ,
er æsku minnar heim ég finn á ný.
Í minninganna bernskuljúfa blæ
ég bærast lít hin gulli roðnu ský.
Og fyrir handan hversdags-sortans sæ
mig seiðir fegri strönd; ég þangað sný
að grænu túni og gömlum, lágum bæ,
þar geymist tregans angan veggjum í.
Mig dreymir draum hins horfna, er eilíft er,
en undirstraumur sálar minnar ber
í fangi sér hið fagra nú sem ryk
og fortíð alla líkt og augnablik.
26 Jakob Smári (1957:77).