Són - 01.01.2007, Qupperneq 106
BERGLIND GUNNARSDÓTTIR106
Á Spáni eru um þetta leyti blikur á lofti í stjórnmálum og sótt að
lýðveldinu sem stofnað hafði verið skömmu áður. Rafael Alberti var
orðinn kommúnisti og starfaði fyrir málstað lýðveldisins og reyndi að
fá félaga sinn frá Chíle til að leggja því lið. Neruda fylgdist með
málum og tók eftir ýmsu, en var ekki pólitískur á þeim tíma, enda
allur á kafi í ljóðagerðinni og naut félagsskapar vinar síns Lorca og
fleiri spænskra skálda og listamanna. „Ég veit ekkert um pólitík,“
sagði hann við Alberti, „ég er svolítið „anarchoid“ — vil gera það sem
mér sýnist.“10 Alberti finnur handa honum og konu hans hús í
Madrid, kallað „Blómahúsið“, þar sem þau setjast að. Það var síðar
eyðilagt í loftárásum í borgarastríðinu.
Segja má að Neruda hafi gerst kommúnisti á einni nóttu. Það var
einn tiltekinn atburður sem umsneri honum tafarlaust, en það var
morðið á vini hans Lorca í blábyrjun borgarastríðsins þegar herinn
reis upp undir stjórn Francos gegn lýðveldisstjórn Spánar. Þá orti
hann ljóðið „Nokkur atriði útskýrð“, sem Ingibjörg Haraldsdóttir
hefur þýtt á íslensku.11 Það birtist í bók hans um Spánarstríðið,
España en mi corazón (Spánn í hjarta mínu), en sú bók var gefin út í
Katalóníu á meðan á stríðinu stóð við allsérstæðar aðstæður. Hún
var prentuð af hermönnum lýðveldishersins í Montserrat-klaustri,
ekki fjarri skotdyn vígstöðvanna og í pappírsgerðina voru meðal
annars notuð föt og sárabindi, óvinafáni og skyrta af márískum
fanga.
Morðið á Lorca olli gífurlegum harmi og reiði, ekki aðeins á Spáni
heldur víða um heim. Í ræðu um Lorca sem Neruda hélt í París árið
1937 segir svo:
Federico García Lorca! Hann var jafn samtvinnaður þjóðinni og
gítarinn, glaður og melankólskur; jafn djúpur og heiðskír eins
og barn, eins og þjóðin. Þótt leitað hefði verið um allar grundir,
þrætt skref fyrir skref hvert fet af landinu til að finna einhvern
sem mætti fórna — fórna eins og táknmynd, hefði ekki verið
hægt að finna í neinum eða neinu ámóta og það sem fyrirfannst
í þessum manni sem var útvalinn: en það er eðliskjarni Spánar,
lífskraftur landsins og djúpspekt. Já, þeir völdu vel, því með því
að skjóta hann hæfðu þeir hjarta kynstofnsins.12
10 Teitelboim, Volodia (1991:165).
11 Ingibjörg Haraldsdóttir (1991:157–160).
12 Neruda, Pablo (1984:59–60).