Són - 01.01.2007, Side 111
PABLO NERUDA – MAÐUR OG HAF 111
Eftir að hafa drukkið sjóina undrumst við
að varir okkar séu áfram jafnþurrar og strendurnar
og við leitum að einum sjó enn
án þess að skilja að varir okkar eru strendurnar
og við erum sjórinn.
En nú var komið að síðustu þolrauninni. Gamall og veikur, en fær
um að lifa í fimm ár enn, samkvæmt umsögn læknis síns — að því til-
skyldu að ekkert óvænt beri við, verður hann fyrir nýju reiðarslagi:
uppreisn hersins gegn þjóðkjörnum forseta landsins og vini hans,
Salvador Allende, árið 1973. Enn ein blóðidrifin valdataka í lífi hans
og nú í hans eigin landi. Hann sér árásina á forsetahöllina sýnda
aftur og aftur í sjónvarpinu, heyrir af fangelsunum og aftökum
manna, margra sem eru vinir hans, í þúsundatali. Hryllingurinn er
alls staðar og verður honum ofraun. Matilde kona hans reynir að
hlífa honum við því sem er að gerast, segir sem svo að kannski sé
þetta ekki eins hræðilegt og það sýnist. „Nei, það er ekki rétt“, svarar
hann, „þetta er fasisminn.“21 Aðgerðum var stjórnað af Pinochet sem
gerðist síðan einræðisherra í Chíle um langt árabil og bandarískir
hagfræðingar og forkólfar frjálshyggjunnar lofuðu fyrir „efnahags-
undur“ í landinu.
Ellefu dögum eftir uppreisn hersins deyr chíleska ljóðskáldið og
nóbelsverðlaunahafinn Pablo Neruda, bugaður af atburðum þeim
sem hann varð vitni að á sínum síðustu dögum.22 Líkvakan fór fram
í húsi hans sem hermenn höfðu áður brotist inn í og eyðilagt margt
verðmætra og fagurra hluta. Einn viðstaddra hrópar nafn hans og
hópur ungra manna svarar með kallinu: „Presente! Ahora – y para
siempre!“23 („Viðstaddur! Nú — og að eilífu!“). Það var fyrsta mót-
mælahrópið sem heyrst hafði síðan herinn tók völdin. Við jarðarför-
ina fylgdi fjöldi manns kistunni á leið í kirkjugarðinn, menn
hrópuðu nafn hans og fóru með ljóð hans upphátt frammi fyrir
ógnandi byssukjöftum; það var dauðaganga í tvennum skilningi
þess orðs.
En sjórinn innra með honum hafði að endingu sameinast út-
hafinu.
21 Teitelboim, Volodia (1991:468).
22 Neruda fékk Nóbelsverðlaunin 1971, tveim árum fyrir dauða sinn.
23 Teitelboim, Volodia (1991:471).