Són - 01.01.2007, Page 127
ÁLITAMÁL Í BÓKMENNTASÖGU 127
var á síðustu öld, þýska bókmenntafræðinginn Erich Auerbach, en
hann skrifaði í greinargerð um bók sína Mimesis:
Sagt hefur verið að hugtakanotkun mín sé ekki ótvíræð og að
heiti sem ég nota til flokkunar þyrftu skarpari skilgreiningar
við. Það er rétt að ég skilgreini ekki þessi heiti […] Það var með
ráðum gert og hluti af vinnuaðferð minni. Viðleitni mín til
nákvæmni beinist að hinu einstaka og hlutbundna. Hið al-
menna – samanburður, söfnun og aðgreining fyrirbæra – ætti á
hinn bóginn að vera sveigjanlegt og fljótandi […] sértekningar
og smættandi hugtök falsa fyrirbærin eða eyðileggja þau.26
Auerbach er hér að tala um víð hugtök á borð við rómantík og real-
isma, hann skilgreinir þau ekki en leggur áherslu á að merking
þeirra eigi að skiljast af því samhengi sem hann notar þau í við grein-
ingu og samanburð á bókmenntaverkum frá hinum ýmsu tímum.
Ofangreind orð Auerbachs eru eins og töluð út úr mínu hjarta. Ná-
kvæm lýsing og greining á einstökum skáldverkum er ómetanleg en
ströng afmörkun á skáldskap heilla stefna eða tímabila leiðir til ófarn-
aðar.
V
Auk almenns ágreinings okkar Arnar um módernisma og nútímaljóð
erum við bersýnilega ósammála um skáldskapartegundirnar prósa-
ljóð og fríljóð, ekki einungis um eðli þeirra og eiginleika að því er
virðist, heldur einnig um upphaf þeirra og sögu.
Örn ber mér á brýn að ég telji prósaljóð og fríljóð „megineinkenni“
nútímaljóða.27 Það geri ég að sjálfsögðu hvergi, enda dytti mér aldrei í
hug að telja eitthvað eitt eða tvennt ‚megineinkenni‘ þeirra,28 en ég ber
skáldin sjálf fyrir því að þeim þótti mikið til um það frelsi og þann sveigj-
anleika sem hinar nýju ljóðtegundir veittu. Og ég vitna sömuleiðis til
ummæla skálda sem þótti frelsið varasamt og óttuðust að það leiddi til
of auðvelds og ódýrs skáldskapar. Eflaust geta flest ljóðskáld tekið undir
með Eliot: „No verse is free for the man who wants to do a good job.“
26 Erich Auerbach (2003:572).
27 Örn Ólafsson (2006a:125).
28 Örn talar hinsvegar um að órökleg ræða sé megineinkenni módernra verka
(1992:23).