Són - 01.01.2007, Page 138
Kristján Árnason
Chrysoris – Gullbringuljóð
Jóns Þorkelssonar
Það mun vart ofmælt að Jón Þorkelsson Skálholtsrektor eða Thor-
chellius, eins og hann nefndist á sínum tíma, hafi verið einn mesti
lærdómsmaður og menntafrömuður sem íslensk þjóð hefur alið.
Hann fæddist árið 1697 í Innri Njarðvík, á sömu slóðum og annar
mikill lærdómsfrömuður, Sveinbjörn Egilsson, tæpri öld síðar, sonur
hjónanna Þorkels Jónssonar og Ljótunnar Sigurðardóttur sem átti ætt
að rekja til Árna Oddssonar lögmanns. Jón var snemma settur til
mennta og lauk prófi frá Skálholtsskóla árið 1715 og guðfræðiprófi frá
Hafnarháskóla árið 1721. Eftir dvöl við bóknám og fræðistörf þar
ytra fram til ársins 1728 sneri hann heim og gerðist rektor Skálholts-
skóla. Svo virðist sem hann hafi átt erfitt uppdráttar í því embætti,
þannig að hann sagði því lausu 1737 og hvarf á ný til Hafnar en kom
aftur heim til Íslands árið 1741 sem samstarfsmaður og leiðsögu-
maður Ludvigs Harboe á yfirreið hans um landið og vann með
honum til 1745 að eflingu skólastarfs og kristnihalds á landinu með
góðum árangri. Að því búnu lá leið hans enn til Danmerkur þar sem
hann bjó til æviloka 1759. Síðustu ár sín var Jón á ríflegum ríkis-
launum og lét eftir sig miklar eignir er hann lést, ókvæntur og barn-
laus, og gaf þær allar til skólahalds í Kjalarnesþingi handa fátækum og
munaðarlausum börnum.
En hann lét ekki einungis eftir sig eigur heldur líka mörg ritverk
sem bera lærdómi hans vitni og eru af ólíkum toga, allt frá þýðingum
guðfræðirita og sálma á íslensku til frumsaminna verka á latínu, jafnt
ritgerða sem kvæða. Þar ber hæst tvö mikil og metnaðarfull sagna-
kvæði á latínu, annars vegar Eclogarius Islandicus, sem hefur að geyma
einskonar ágrip af Íslandssögu, og hins vegar kvæðið, Chrysoris, sem
er lofgerð eða laudatio um heimasýslu skáldsins, Gullbringusýslu, og
heitir raunar eftir henni, þar sem það er samsett úr grísku orðunum
χρυσóς (gull) og óρος (fjall), og eins og við er að búast í slíkum
kveðskap telur hann sýslunni flest til gildis, jafnt í náttúru sem mann-