Són - 01.01.2014, Page 102
100 anna ÞorBjörg ingólfsdóttir
Þegar í þykkviðrum þokan skríður lágt,
aumingja smalarnir eiga stundum bágt.
Eiga þeir í einverunni einatt leiða stund,
fellur regn og þoka sem farg á þeirra lund.
Þegar aftur lyftir sér þokubelti grátt,
lifa þeir við fábrotin lífskjör í sátt.
Hvarf þá stundum smalanum hjörðinni úr,
þegar fjallaþokan var þykk eins og múr.
Húsbóndans hjarta ei hrærði bæn né tár,
varnarlaus hann varð að þola vandarhöggin sár.
Aldrei lagði’ ’hann þokunni ámæli neitt;
brellur hennar gátu ei til bræði hann reitt.
Glaður vegna þokunnar þoldi’ ’hann hverja raun[,]
lifði æ í voninni um vegleg sigurlaun.
Tamið hafði’ ’hann tungu sína á tuttugasta ár,
göfgað hafði viðleitnin vonir hans og þrár.
„Óðum fækkar dögum að úrslitastund!“
– Sigurvonin gerði hann glaðan í lund.
Svo fór hann með ánum hinn síðasta dag.
– Nú var marki náð við hið næsta sólarlag!
Þá féll yfir þoka svo þykk, að hvergi sá.
Hjörðinni með tölu týndi smalinn þá.
Leitaði hann búsmalans árangurs án.
Hverri kind að týna var herfileg smán!
Bergmáluðu klettarnir bræðiorðin hans:
„Bannsett farðu þoka úr byggðum þessa lands!
Bölvuð sértu þoka, er byrgir mér sýn!
Réttmæt eru æfagömlu álögin þín!“
Þá var eins og þokunni þyrlað væri frá.
– Var sem upp af vondum draumi vaknað hefði’ ’hann þá.
Hvað var það, sem hafði hann í reiði sagt?
Viðjar höfðu orð hans á veika konu lagt.
Hafði’ ’hann ekki heitið að hemja sína lund,
og leysa hana’ úr álögum á örlaga stund?
Turnaborg er hlóð’ hann í tuttugu ár með þrá,
hrundi nú sem hrófatildur augnabliki á.
„Lagt mér hefði dagurinn lýsigull í mund,
ef efnt ég hefði eið minn á úrslitastund“.
Grét hann þar í kyrrðinni gæfulausan dag.
– Ærnar rak hann harmþrunginn heim um sólarlag.