Són - 01.01.2014, Page 153
Þórunn Sigurðardóttir
Skáldskaparfræði frá 17. öld
Víðfrægasta rit norrænna manna um skáldskaparfræði er Snorra-Edda,
enda var hún skrifuð upp öldum saman, úr henni unnið, gerðar við hana
skýr ingar og hún hefur verið þýdd á erlendar tungur allt fram á þennan
dag. Með fornfræðaáhuga 17. aldar manna var henni gert hátt undir
höfði og ritgerðir samdar upp úr henni. Þekktastar eru Laufás-Edda
séra Magnúsar Ólafssonar (um 1573−1636)1 og Samantektir um skiln-
ing á Eddu eftir Jón Guðmundsson lærða (1574−1658)2, en einnig eru
dæmi um fleiri ritsmíðar af þessu tagi. Í handriti sem varðveitt er á
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir safnmarkinu AM
148 8vo eru tvær stuttar ritgerðir um skáldskaparfræði.3 Aftari ritgerðin
er íslensk þýðing á ritgerð sem áðurnefndur Magnús Ólafsson samdi á
latínu, og prentuð var sem viðauki við Literatura Runica eftir danska
forn fræðinginn Ole Worm árið 1636 (endurpr. 1651) (Sverrir Tómasson
1996:73),4 en ekki er vitað hver samdi þá sem skrifuð er framan við hana.
Í fremri ritgerðinni er fjallað um ýkjur og skreytur í sögum, rímum
og kvæðum og færð rök fyrir því að það auðgi skáldskapinn að nota
hugar flugið, þótt jafnan verði að gæta hófs í skreytninni. Magnús
Ólafs son fjallar í sinni ritgerð um íslenskan skáldskap, listfengi hans
og lærdóm, og dálítið einnig um skáldin sjálf, einkum fornskáldin og
stöðu þeirra sem hirðskáld norrænna kónga. Í báðum ritgerðunum er
vísað í Snorra-Eddu en einnig í klassíska höfunda, og er augljóst að
höf undar ritgerðanna voru lærðir menn sem kunnu að beita klassískum
stílbrögðum og málskrúði, og þekktu klassískar hugmyndir um eðli
skáldskapar.
Handritið AM 148 8vo hefur verið kennt við upprunastað sinn og
kallað Kvæðabók úr Vigur.5 Það mun hafa verið skrifað að mestu á árun-
um 1676–1677 (sbr. blöð 76r og 213r) af Magnúsi Jónssyni (1637–1702),
1 Magnús mun hafa unnið að Laufás-Eddu á fyrsta áratugi 17. aldar (sbr. Faulkes 1979:15).
2 Jón lærði samdi sitt rit árið 1641 (sbr. Einar G. Pétursson 1998:19).
3 Þær eru prentaðar stafrétt í grein Þórunnar Sigurðardóttur í Griplu árið 2008.
4 Anthony Faulkes prentaði ritgerðina sem viðauka við útgáfu sína á Laufás-Eddu ásamt
enskri þýðingu (bls. 408‒415). Hann hefur augljóslega ekki vitað um ritgerðina í þessu
handriti.
5 Það var gefið út ljósprentað árið 1955 með ítarlegum inngangi eftir Jón Helgason pró-
fessor.