Glóðafeykir - 01.05.1967, Blaðsíða 5

Glóðafeykir - 01.05.1967, Blaðsíða 5
GLÓÐAFEYKIR 5 og þurfti þess með. K. S. var veikburða stofnun, er hann tók við, og allt í óvissu um farnað félagsins og framtíð. Svo komu ógnandi áföll: harðindin fyrir og um 1920 og ægilegt verðfall afurða þar á ofan, síðan kreppan mikla upp úr 1930. Þá voru erfiðir tímar fyrir allan þorra manna. Þeir erfiðleikar hlutu að bitna á kaupfélaginu og heldur ómjúklega. En sr. Sigfús var viljasterkur maður, hygginn og forsjáll. Hann hélt öllum þráðum í sinni traustu hendi, stýrði fram hjá öllum skerjum, þótt torsiglt væri á stundum, og skilaði fleyi sínu heilu í höfn. Er hann lézt frá þessu óskabarni, 71 árs gamall, var það komið af gelgjuskeiði, löngu vaxið upp úr öllum unglings- flíkum, orðið máttugasta stofnun þessa héraðs og áhrifaríkasta um almanna hag. Slík var forysta og stjórn séra Sigfúsar. Farsæld og gifta fylgdi honum að öllu starfi. Til voru þeir, sem töldu að sr. Sigfús væri of íhaldssamur í stjórn sinni á kaupfélaginu. Það álit var ekki á rökum reist. Satt er það, að stundum fóru menn bónleiðir til búðar. En hafa verður í huga, að sr. Sigfús tók við félaginu alls ómáttugu og illa stæðu. Hér varð að skipta um sköp — og beita öllu í senn: varfærni, forsjálni, fram- sækni. Sr. Sigfúsi var fyrir öllu, að félagið mætti verða héraðsbúum sú hjálparhella og lyftistöng, sem góðum og vel reknum samvinnu- félögum er áskapað að vera. Til þess þurfti að treysta grunninn, víkka verksviðið, færa út kvíarnar. Þetta tókst honum með þeim ágætum, að þess mun lengi minnzt. Viðskiptin margfölduðust, rekst- urinn varð æ víðtækari og viðameiri. Keyptar voru lóðir og hús- eignir, reist slátur- og frystihús, stofnað mjólkursamlag, svo að eitt- hvað sé talið. Félagið efldist með hverju ári, þrátt fyrir óviðráðan- leg áföll af völdum harðæris, verðfalls og heimskreppu. Séra Sigfús Jónsson markaði djúp spor í sögu þessa héraðs. Um aldartjórðungs skeið vann hann meira starf og gifturíkara fyrir hér- aðið en nokkur maður annar. Hann var leiðtogi, óeigingjarn og otrauður, hygginn, traustur, farsæll og framsýnn, mestur gæfumaður í félagsmálum sinna samtímamanna í Skagafirði. G. M.

x

Glóðafeykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Glóðafeykir
https://timarit.is/publication/1145

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.