Skírnir - 01.01.1941, Side 7
Sigurður Nordal
Snorri Sturluson
Nokkurar hugleiðingar á 700. ártið hans
I.
Aðfaranótt 23. dags septembermánaðar, árið 1241, bar
gesti að garði í Reykholti í Borgarfirði. Var þar kominn
Gissur Þorvaldsson, sem eftir Örlygsstaðabardaga var orð-
inn voldugastur höfðingi á Islandi, með sjö tigi manna.
Hann bjó þá að Reykjum í Ölfusi. Ekki er þess getið,
hverja leið hann hafi riðið með flokk sinn, en líklegt er,
að hann hafi farið um Þingvöll, fyrir Ok og niður Reyk-
holtsdal. Gissur hafði áðursent tvo menn á njósn til Borg-
arfjarðar, efalaust til þess að ganga úr skugga um, að
Snorri bóndi Sturluson í Reykholti væri heima. En auðsætt
er, að Snorra hefur verið með öllu ókunnugt, að Gissurar
væri þangað von eða nokkur hætta vofði yfir sér. í Reyk-
holti var þá bær mikill og virki öruggt umhverfis, er Snorri
hafði látið gera. Mun svo hafa verið um búið, að gott væri
til varnar, þótt fleiri menn sæktu að en fyrir voru. Að
þessu sinni virðast þar ekki hafa verið nein varðhöld, held-
ur hafi mennGissurar gengið umsvifalaust í virkið og beint
að skemmunni, sem Snorri svaf í. Brutu þeir hana þegar
upp. Snorri vaknaði við harkið, gat forðað sér úr skemm-
unni og komst í kjallara, sem var undir húsunum. Helzt er
það að ráða af frásögn Sturlungu, að Gissur hafi ginnt
Arnbjörn prest, sem einn vissi, hvar Snorri leitaði felu-
staðar, að segja til hans: „kvað þá eigi sættask mega, ef
þeir fyndisk eigi“. En þegar er aðkomumenn urðu varir
við, hvar Snorri var, gengu fimm þeirra í kjallarann og
unnu þar á honum. Fekk hann ekkert tækifæri til þess að
tala við Gissur né koma neinum sáttaboðum fyrir sig.
Víg Snorra Sturlusonar verður hvorki talið með afdrifa-