Skírnir - 01.01.1941, Page 20
18
Sigurður Nordal
Skírnir
huga verk Snorra einkanlega frá sjónarmiði bókmennta-
legrar ritskýringar.
í bók minni um Snorra, sem áður er getið, reyndi eg að
draga saman árangurinn af því, sem eg þá hafði lært, með
upphaflegan tilgang minn í huga. Eg þurfti að losna við
þetta efni í bráð vegna annarra verkefna, sem að kölluðu.
Þessi bók er að vísu æskuverk, skrifuð á skömmum tíma,
þung í vöfum, að ýmsu leyti illa saman sett, ekki annað en
áfangi á langri leið. En eg hef um það dóma þeirra manna,
sem eg get tekið mark á, að hún var á þeim tíma að efni
til gott ágrip þess, sem þá var bezt vitað, lagði nokkurn
skerf til frekari skilnings og er enn þá skásta heildaryfir-
litið, sem til er að tjalda. Eg hef hvað eftir annað átt kost
á að fá hana þýdda og gefna út erlendis. En eg hef afstýrt
því, af því eg varð svo fljótt óánægður með hana. Og nú
skal eg reyna að skýra í sem stytztu máli, hvað eg helzt veit
vansagt og missagt í henni, þeim til viðvörunar, sem enn
kunna að lesa hana, og til yfirbótar við minningu Snorra
Sturlusonar.
VI.
Fyrir rúmum 20 árum vissi eg allt að því eins mikið um
konunga-sögurnar og eg veit nú. Að vísu hafa á þessu ára-
bili komið fram einstöku rit og ritgerðir, sem ýmist hafa
rökstutt betur ýmsar eldri niðurstöður mínar um það efni
eða lagfært þær. En ekkert þeirra hefur breytt hugmynd-
um mínum um heimildir Snorra að Heimskringlu né með-
ferð hans á þeim í meginatriðum.
Hins vegar hafði eg fram til þess tíma ekki fengizt neitt
að ráði við sjálfstæðar rannsóknir íslendinga sagna. Eg
miðaði því að sjálfsögðu við þær kenningar fræðimanna
um þessar sögur, sem þá voru ríkjandi, þótt nokkur ágrein-
ingur væri meðal þeirra og mig grunaði, að í þeim væri
meiri veilur en eg taldi mig bæran að ræða um að svo
stöddu. Af þessum kenningum skal eg geta tveggja, sem
eru nátengdar hvor annarri og báðar lifa góðu lífi enn þá,