Skírnir - 01.01.1941, Page 35
Skírnir
Snorri Sturluson
33
■engu minna alíslenzkt en erlent efni. Það má bera brigður
á full sannindi allra mannlýsinga Snorra, nema einnar:
hvernig hann lýsir sjálfum sér í verki sínu. Heimskringla
verður allt af óyggjandi heimild um þroska mannvits og
listar á íslandi í upphafi Sturlungaaldar. Því betur sem
oss skilst, að miklu meira í konunga sögum Snorra er
mótað eða skapað af honum en menn hafa viljað kannast
við, — hvort sem miðað er við heimildir hans eða það,
sem gerzt hefur í raun og veru, — og áhrif hans á mennt-
ir samtíðar og næstu kynslóða víðtækari en vér höfum
enn gert oss nógu ljóst, því fremur hlýtur oss að renna
blóðið til skyldunnar að leggja alúð við þær sögur engu
miður en aðrar bækur hans og önnur fornrit vor. Eftir því
sem vér rekjum rætur þeirra dýpra í íslenzkan jarðveg,
ættum vér að þykjast betur að ávöxtunum komnir. Þetta
er meginatriðið. Frægð Snorra og íslands af honum er
að vísu mikils verð og skylt að halda henni á loft. Hitt
er samt brýnna og áhrifaríkara, að rit hans verði þjóðinni
nú og framvegis eins arðbær til vaxtar og viðgangs og
efni standa til. Vér njótum þeirrar gæfu, að hvert barn
heyrir þar „uppsprettulindir og niðandi vötn“ sinnar eigin
tungu, eins og skáldið segir.
Enginn íslendingur getur lesið þau án þess að unna
þeirri tungu betur síðan og verða vandlátari um rækt
hennar. Og sama máli gegnir um anda þeirra allan. Hafi
frásagnir Heimskringlu um konunga og höfðingja austan
hafs eggjað frændur vora til frama: „Þeir eru Norðmenn,
sem vér erum“, — ættu rit Snorra Sturlusonar eigi síður
að frýja samlöndum hans hugar. Hann var íslendingur,
sem vér erum. Svo hátt bar íslenzka snilli fyrir sjö öldum.
Það er oss meira en sómi. Fyrirheit er það enn í dag
smárri þjóð, að slíkir kvistir hafa vaxið með henni. En
vandi fylgir þeirri vegsemd. Afrek Snorra eru eitt af því,
sem vísar öldum og óbornum rithöfundum vorum á bratt-
ann, um leið og hörmuleg æfilok hans minna þjóðina á að
ota þeim Árna beisk og Símoni knút ekki sjálfrátt á neitt
af því, sem gróandi er eða lífvænt í íslenzkri menningu.
3