Skírnir - 01.01.1941, Side 37
Guðm. Finnbogason
Það, sem af andanum er fætt
Fá orð eiga sér merkilegri sögu en þau, sem tákna sál-
ina eða hugann. Frummerking þeirra orða er mjög oft
andardráttur, andblær, blástur, vindur, og má jafnt finna
dæmi þess í málum Asíu, Evrópu, Ameríku, Ástralíu og
Malajalanda. Svo er t. d. um sanskritorðin atman og
prana, hebresku orðin ruach og nepesh, grísku orðin
psyche og pneuma, latnesku orðin anima og spiritus og þau
orð, sem af þeim eru dregin í öðrum málum. Að líkindum
er sama að segja um þýzka orðið Geist og enska orðið
ghost (sbr. gustur). Um íslenzku orðin andi og önd er
þetta augljóst, og sama hygg eg sé um orðið hugur, sem
mun vera skylt þýzka orðinu Hauch, andblær, andvari,
vindblær. Það var því eðlilegt, að skáldin kölluðu brjóstið
hugtún eða hugströnd. Hvergi kemur þessi merking skýr-
ara fram en í söpunarsögu Gamla testamentisins: „Þá
myndaði Jahve Guð manninn af leiri jarðar og blés lífs-
anda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál“.
Vart er hægt að hugsa sér nærtækari og eðlilegri skýr-
ingu á eðli lífs og vitundar en þessa. Hver maður finnur,
að líf hans og vitund er háð andardrættinum. Hvorttveggja
hverfur um leið og hann. Hins vegar færir oft djúpur teyg-
ur af hreinu og svalandi lofti fjör og þrótt um allan líkam-
ann, nýjar hugsanir streyma að, tilfinningarnar glæðast,
fögnuður, þor og þrek læsir sig um hverja taug. Þarna var
því sem lífið sjálft streymdi um mann með loftinu, sem
hann andaði að sér, væri með einhverjum hætti fólgið í
því, loftið væri gætt æðra mætti, sem mennirnir fengju
hlutdeild í, og þar með er kominn fyrsti vísirinn til trúar-
innar á himneskan anda, sem auðvitað var því hreinni,
3*