Skírnir - 01.01.1941, Side 58
56
Ásmundur Guðmundsson
Skírnir
komst aftur á fætur, gat hann aðeins tyllt niður tánni.
Læknirinn og flestir aðrir töldu það víst, að hann myndi
verða haltur áfram. En faðir hans fann það ráð, sem dugði.
Hann gerði honum á veika fótinn sérstakan skó með há-
um tréhæli og lét hann alltaf ganga í honum. Smátt og
smátt sneið Helgi neðan af hælnum, og við það tók fótur-
inn að réttast meir og meir, unz Magnús gekk óhaltur.
Það var eins og þau, foreldrar hans, hefðu eignazt hann
tvisvar. Föður hans hló hugur við þessum efnilega syni,
sem stundaði af sama kappi sláttinn á sumrum og bók-
námið á vetrum, og fórst hvorttveggja jafnvel. Hann lét
Guðmund son sinn kenna honum og sendi hann svo með
honum í Latínuskólann, þótt ekki væru mikil fararefni
þeirra bræðra. Hann vissi, að vel og sparlega myndi með
þau farið. Þegar að því var fundið við hann, að hann hefði
ekki gefið Magnúsi frakkaföt, sem þá var títt, að skóla-
piltar eignuðust í efstu bekkjum Latínuskólans, eða við
stúdentsprófið, þá svaraði hann þessu einu: ,,Ég vil held-
ur eiga hann efstan, svona eins og hann er, en neðstan á
frakka“.
Uppvaxtarár Magnúsar í Birtingaholti voru rík að un-
aðsemdum. Milli þeirra systkinanna var einkarkært og
heimilisbragur hinn bezti. Hann hefir lýst þessum árum
að nokkru í Skólaræðum í ritgerð, sem hann nefnir: „Upp-
eldi og heimilishættir í Birtingaholti fyrir 70 árum“, og
er vel, að sú lýsing geymist. Hér skal því aðeins bent á ást
hans á Birtingaholti, sem var jafnframt ást á sveitinni og
sveitalífinu. Mun sjaldgæf jafnmikil átthagatryggð. í Birt-
ingaholti átti brekka og hvammur, barð og laut, á og síki
og fit, Steinkerið, Stöðulkrikinn, Stekkjarkletturinn og
Barnamóinn sína sögu um leik eða störf þeirra systkina.
Þar var beðið á eyrum eftir tjaldinum á vorin, og lóunni
og spóanum og kríunni heilsað með fögnuði. Þar voru um
allt „smávinir fagrir, foldarskart“. Þangað leitaði hann
jafnan síðan hvert sumar, sem hann mátti. Hann sagði
stundum, að sér þætti mest gaman að lifa í leti og iðju-
leysi frammi til fjalla, og þá átti hann við það, að helzt