Skírnir - 01.01.1941, Side 132
130
Jón Helgason
Skírnir
stjóra, þá dæmdi hann H. Kr. Friðriksson á ný í sektir
fyrir óhlýðni við skipanir sínar um baðanir. En yfirkenn-
arinn skaut máli sínu enn til yfirréttar, sem aftur ónýtti
sektardóminn, með því að landshöfðingja hefði brostið
heimild til að fela ritaranum slíkt dómsvald. (Þennan
dómsúrskurð yfirréttar staðfesti hæstiréttur ári síðar.)
Til þess nú að taka af allan efa um dómsvald lögreglu-
stjóra í kláðamálinu, útvegaði landshöfðingi honum kon-
unglega umboðsskrá (26. sept. 1876), til þess að gegna
„öllum dómarastörfum, framkvæmdarstörfum og fógeta-
störfum varðandi útrýming f járkláðans“, sem annars væru
sýslumönnum falin. Þegar nú Jón ritari hafði fengið þessa
konunglegu umboðsskrá, hugði hann dómsvald sitt öruggt
og dæmdi í því trausti bónda einn fyrir sams konar óhlýðni
og yfirkennarann áður. Dómi þessum var skotið til yfir-
réttar. En hér gerðist sá atburður, sem vakti hina mestu
eftirtekt, að yfirréttur ónýtti dóminn, og dómsástæðan var
sú, að lögreglustjóri hefði ekki dómsvald að lögum; hin
kgl. umboðsskrá færi því beinlínis í bága við stjórnar-
skrána. Hér væri um þá breytingu á skipun dómsvaldsins
að ræða, sem ekki yrði ákveðin nema með sérstökum lög-
um. Þótti mörgum vegur yfirréttarins vaxa við þetta. Sem
að líkum lætur hefir Jóni ritara þó ekki þótt vegur yfir-
réttarins vaxa við þessi úrslit (og sennilega landshöfðingja
ekki heldur). Hefi ég fyrir satt, að málið hafi ekki farið
til hæstaréttar.
Jón ritari hélt allt að einu áfram baráttu sinni gegn
kláðanum, án þess að skeyta hið minnsta um þá óvild, sem
harðfylgi hans bakaði honum víða um sveitir, enda var
svo komið um haustið 1877, að kláðans varð hvergi vart
í hinum grunuðu sveitum, og þótti með því fengin vissa
fyrir því, að kláðanum væri nú til fulls útrýmt. Og það
var mál allra sanngjarnra manna, að þessi árangur væri
Jóni ritara að þakka, röggsemi hans og stefnufestu, enda
veitti alþingi 1879 honum 1000 kr. aukaþóknun af landsfé
í viðurkenningarskyni fyrir framúrskarandi elju hans og
áhuga í þessu máli. En þetta var því aðdáunarverðara,