Skírnir - 01.01.1941, Page 137
Skírnir
Jón ritari
135
ingu (Guðmundur á Hól, Pétur Gíslason í Ánanaustum,
Jón Þórðarson í Hákoti, Egill Egilsson í Glasgow og Jón
ritari sjálfur). En það mun hafa verið Jóni ritara hvað
mest gleðiefni, að honum tókst að fella erkióvin sinn, Hall-
dór Kr. Friðriksson yfirkennara, þótt sú gleði yrði
skammæ, því að tæpu ári síðar komst yfirkennarinn aft-
ur í bæjarstjórnina, en ,,höfðingjavaldið“ var í bili brot-
ið á bak aftur, svo áhrifa Halldórs yfirkennara gætti
minna en áður, þar sem hann nú var þar minnihlutamaður.
En mótstöðumenn Jóns ritara gátu ekki gleymt hrak-
förum sínum við bæjarstjórnarkosningarnar. Höfðu þeir
sent landshöfðingja kæru yfir framkomu hans, sem þeir
töldu alls ósamboðna stöðu hans sem embættismanns og
meira að segja hægri handar sjálfs landshöfðingja. En
landshöfðingi tók þá kæru ekki til neinna greina. Allt
árið 1879 voru bæjarstjórnarfundir ein af bezt sóttu
skemmtunum „fólksins“ hér í bæ, því að þar mátti allt af
eiga von á, að eitthvað sögulegt gerðist fyrir tilverknað
Jóns ritara. Þar kom þá og að lokum 4. desember, að Jón
ritari var „voteraður“ úr bæjarstjórn, samkvæmt 10. gr.
tilskipunar um bæjarstjórn í Reykjavík, með fimm atkv.
gegn tveimur. Með þessu vildu menn losna við ritarann.
En landshöfðingi úrskurðaði mánuði síðar, að sú ályktun
meiri hluta skyldi teljast ógild!
Hluttaka Jóns ritara í félagsmálum Reykjavíkur hefir
vafalítið átt sinn þátt í því, að hjá honum vaknaði á þess-
um baráttuárum hans löngun til þess að taka þátt í al-
mennum landsmálum sem alþingismaður. Vorið 1879 býð-
*
ur hann sig fram í Skagafjarðarsýslu, nær þar kosningu
og á sæti á alþingi sumurin 1879 og 1881. Hann reyndist
þó ekki sá atkvæðamaður á alþingi, sem menn höfðu bú-
izt við, þessi tvö þing, sem hann átti þar sæti, enda all-
mikilli mótspyrnu að mæta, einkum fyrra þingið, er hann
sat í efri deild, þar sem sæti áttu ýmsir þeirra reykvíkskra
embættismanna, sem hann hafði staðið á öndverðum meiði
við í stjórn bæjarmála og bæjarstjórn.