Skírnir - 01.01.1941, Page 179
Skírnir
Jean Sibelius
177
gat honum dottið í hug að leika lög á hljóðfæri sitt, sem
urðu til á svipstundu; og oft var þá ákafinn svo mikill, að
strengirnir slitnuðu á fiðlunni, og að síðustu var aðeins
einn strengur eftir til þess að túlka tilfinningar hans. Þeg-
ar hann var úti á sjó, stóð hann stundum frammi í stafni
bátsins og lék fyrir hafið; og þegar hann, ásamt tveim
systkinum sínum, var úti í bátnum á heiðríkum sumar-
kvöldum, tóku þau upp hljóðfæri sín og léku saltónlist
(kammermusik), svo að tónarnir hljómuðu út yfir vatnið.
En löngu áður en hér er komið sögunni, hafði tónlistin
gert vart við sig hjá drengnum Sibeliusi. Þegar verið var
að spila og syngja heima hjá honum, var hann vanur að
setjast undir píanóið, og hvenær sem færi gafst, prílaði
hann upp á píanóbekkinn og reyndi að fikra sig áfram
eftir hljómum og lögum. Þegar hann var 10 ára gamall,
lék hann eftir eyranu ýmsa kafla úr hljómleik (konsert)
fyrir hörpu, sem hann þá nýlega hafði hlustað á, svo að
allir viðstaddir undruðust. Iðulega gerði hann lög út af
einhverju, sem hann hafði lesið eða heyrt getið um; þann-
ig samdi hann „Líf Evelínu frænku í tónum“ í tilefni af
fjölskylduhátíð, sem haldin var heima hjá föður hans.
Hann hafði nú þegar lært að þekkja nóturnar og fór að
skrifa það, sem honum datt í hug.
Fyrstu tónsmíð sína kallaði hann „Yatnsdropa“. Var
hún samin fyrir fiðlu og gripl á knéfiðlu. Þannig hafði
hann sótt fyrstu hugmynd sína til náttúrunnar, og við
náttúrukennd hans hafði nú bætzt vottur af raunsæis-
kennd, því að griplið (það er, þegar gripið er í strenginn
með fingrinum í stað þess að strjúka með boganum) átti
að tákna fall regndropanna á jörðina.
Allar þessar minningar frá bernskuárum Sibeliusar eru
sönnun þess, hve sterk bönd binda hann við land hans og
þjóð, ekki sízt við hið frumstæða í náttúrunni. Þar liggur
kjarninn í öllum hans afrekum, og þar er hann stærstur,
enda hefir hann lengst af dvalið í heimalandi sínu. En
nafn hans er þegar fyrir löngu þekkt í öllum hinum mennt-
12