Skírnir - 01.01.1941, Page 217
Skírnir
Ritfregnir
215
.alstaðar öllum leiður, verður hið síflakkandi sníkjudýr, sem tekur
án þess að gefa, sem eyðir án þess að skapa gróður . . . En að lok-
um deyr hann sjálfum sér trúr í blekkingunni og lífslyginni —
með þetta ávarp á vörunum til hins einasta eina á himni og jörðu,
sem hann kynni að geta látið sér sæma að lítillæklca sig fyrir:
„Nú bið ég um náð þína, drottinn; um speki bið ég þig ekki,
af henni hefi ég nóg“.
Sölvi Helgason er hið mikla reiðiteikn á himni þessa skáldverks,
skírskotandi til fortíðar, talandi til nútíðar og bendandi í varnaði
til framtíðar. Hann er sígildur fulltrúi þeirra, sem hafa ekki þrek
né þolgæði til þess að horfast í augu við veruleikann, þeirra, sem
í stað eðlilegrar, samfelldrar þróunar krefjast af tilverunni alls í
einu og með sem minnstri fyrirhöfn af þeirra hendi, lifa sjálfir í
heimi lífslyga og blekkinga og leitast við að leiða þangað aðra,
telja sjálfa sig alvisa og óskeikula og líta á alla, sem geta ekki fall-
izt á firrur þeirra og hugaróra, sem heimskingja og fáráða eða
fanta og fúlmenni. Þessir menn koma fram á öllum sviðum þjóð-
lífsins, koma fram í trúmálum, bókmenntum, stjórnmálum o. s. frv.,
og alstaðar eru einkenni þeirra hin sömu, en yfirleitt eru þeir nú
á tímum aðeins flakkarar í andlegri merkingu, þó að raunar þeir
séu til, sem eru hinir fullkomnustu arftakar Sölva Helgasonar,
menn, sem fara bæ frá bæ, sveit úr sveit — og boða heimsendi
innan fárra daga eða eilíft sælurílci á jörðu, sem verði til fyrir
þeirra atgerðir innan mjög skamms tíma. Hinir pólitísku píslar-
vottar minnimáttarkenndarinnar sýna sig oft sem býsna glögg-
skyggna gagnrýnendur á annarra bresti og vammir, svo sem Sölvi
sálugi Helgason hjá Davíð, þegar hann prédikar yfir bændum í
kauptúni einu á Austfjörðum, og úrræði arftaka Sölva nú á dög-
um reynast svo yfirleitt nákvæmlega jafn víðtæk og raunhæf og
hans. Þá þekkjum við það, að Sölvar nútímans grípa iðulega til
þess úrræðis að lappa rytjulega og gatslitna skósóla verðleika
sinna með skæklum ei'lendra umsagna, rétt eins og Sölvi Davíðs
gerir inni á Bauk á Akureyri, og þannig mætti lengi benda á hlið-
stæður milli þess Sölva, sem Davíð hefir skapað í skáldverki sínu,
og einstaklinga, sem ganga um ljóslifandi á Islandi á því herrans
ári 1941. En reiðiteikn skáldsins gefur tilefni til víðtækari athugr
ana og samanburðar, þar sem það óþol, það þrekleysi og sú tál-
girni, sem minnimáttarkenndin jafnan skapar, hefir gripið heilar
stéttir og sumar hinar stærstu menningarþjóðir heimsins, svo að
þær hafa velt sér í fang hinum samvizkulausustu Sölvum Helga-
sonum — og af þessu hafa sprottið fárleg hermdarverk, víg
milljóna af mönnum, tortíming alls konar verðmæta og alger af-
neitun alls þess, sem beztu menn mannkynsins hafa frá því sögur
hefjast barizt fyrir og eitt talið mönnum sæmandi.