Skírnir - 01.01.1944, Side 24
18
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
en sléttuböndum. í kafla einum í „íslendingum“ tekur
hann hina dýru hætti til meðferðar, reynir að grafast
fyrir um eðli þeirra og gildi.
Aftur og aftur fjallar Guðmundur um kenningar hins
gamla skáldskapar. Hann hefur gaman af gátu-eðli þeirra,
honum er yndi að útskýra hina listrænu tvíhyggju, sem
þær birta, þar sem hluturinn, sem um er rætt, er eitt og
um leið annað; „tunglskin Eiríks bráa“ hjá Agli er í senn
tunglsljós og augnatillit, og lýsingin fær kynlegan blæ og
magn við samtengingu þessara ólíku hugtaka.
Ég hef nú nefnt nokkur dæmi þess, hvernig Guðmund-
ur sýndi mikinn sóma atriðum úr íslenzkum bókmenntum,
sem einna sízt falla nútíðarmönnum í geð. En því fór
vitanlega fjarri, að hann einangraði sig í þessu; víða í
ritum sínum túlkar hann aðgengilega snilld, svo sem mann-
lýsingar fornsagnanna eða úrvalsljóð síðari tíma skálda.
En mikið kveður þó að sókn hans í hið torvelda; listamað-
urinn hafði gaman að koma lesanda á óvart, bauna á hann
einhverju ólíklegu og sýna gildi þess.
Guðmundur vissi vel, að ekki er allt gull, sem glóir. Og
hann va.r til með að rísa öndverður gegn mörgu, sem þá
og þá var í tízku, en honum fannst ekki eiga í sér fólgið
neitt gildi. Eftirherman eða stælingin styðst við náttúru-
hvöt í brjósti mannsins, sem vel getur varpað villuljóma
yfir ómerkilega hluti. Guðmundi datt ekki í hug að halda,
að ýms útlend menningarfyrirbrigði, sem mönnum hættir
stundum til að prédika eins og evangelíum hér heima,
væru endilega betri en þau íslenzku, þó að svo vildi til, að
fleiri menn aðhylltust þau. Höfðatalan þótti honum ekki
óskeikull mælikvarði á verðmætið. Og hann var ósmeykur
að kveða upp úr í þessum efnum. Einu sinni lagði hann
út í styrjöld við eitt mesta stórveldi heimsins; það var,
þegar hann mælti móti drengjakolli og andlitsfarða. Auð-
vitað beið hann lægra hlut, en hann sýndi fræknleik í at-
lögunni.
Samhengið í íslenzkri menningu var Guðmundi mjög
ríkt í huga. I mörgum greinum þótti mönnum hann íhald-