Skírnir - 01.01.1944, Side 27
Skírnir
Guðmundur Finnbogason
21
Aftur og aftur skrifaði hann um hreinsun og auðgun
íslenzkunnar; greinilegast í ritgerðinni „Hreint mál“, sem
prentuð var í Skírni 1928. Hann fagnaði því, að íslend-
ingar eiga að máli til sálufélag, hvar og hvenær sem þeir
lifa, og hverrar stéttar sem þeir eru. íslenzkan er hrein,
segir hann, hún er gagnsæ fyrir hugsunina. Hvert íslenzkt
orð nýtur frændstyrks síns í málinu, sem styður mynd
þess og merkingu, svo að það færist síður úr skorðum;
og ættarbragð orðs gerir það skiljanlegt, þó að það væri
manni ókunnugt. Lausn, lausna, lausnari, lausung, laus-
ingi, leysa, leysing, leysingi, leysir, los, losa, losun — hvað
nýtur annars. En útlendu orðin gefa málinu óhreinan blæ.
Þau eiga engan frændstyrk í málinu, merking þeirra og
mynd hættir til að brjálast. Þau eru ógagnsæ hugsuninni
og alþýðumanni óskiljanleg. Og þau eru „hægindi hugs-
unarletinnar".
Auðvitað er alltaf nokkurt erfiði í því fólgið að leita á
brattann. En hér er margt til ráða. Stundum eru til gömul
orð, sem taka má upp að nýju, breytingalaust og umsvifa-
laust. Stundum má taka upp gömul og úrelt orð og gefa
þeim nýja þýðingu. Eða þenja má algengt orð, bæta við
merkingar þess. Loks veitir íslenzkan nærri óþrjótandi
færi á að smíða ný orð.
Ég held Guðmundi hafi verið fátt kærari iðja en þessi
auðgun málsins. Og hér vann hann verk, sem seint verður
ofmetið. Áður er getið starfs hans í Orðanefndinni með
Sigurði Nordal og öðrum. í ritum hans úir og grúir af
„nýyrðum“ í þeim skilningi, sem áður getur. Mörgum
þeirra taka menn nú ekki eftir, þau eru löngu orðin al-
þjóðar eign. Sá var líka háttur Guðmundar, þegar kostur
var, að koma orðum sínum á framfæri inni í miðju megin-
málinu, í snjöllum og lifandi setningum, og menn innbyrtu
þau oft án þess að veita nýjabragði þeirra sérstaka at-
hygli. Auðvitað voru ekki öll nýyrði Guðmundar jafngóð,
það gat ekki öðru vísi verið og er ekki orða vert. — Guð-
mundur var afkastamikill þýðandi, hann þýddi bækur um
hin sundurleitustu efni. Mannfræði, málaralist, tónlist,