Skírnir - 01.01.1944, Qupperneq 43
Skírnir
Einar Jónsson
35
Ef vér nú þekktum ekki neitt verk Einars Jónssonar
og vissum aðeins um hann það, sem ég nú hef sagt, hvaða
hugmyndir mundum vér þá gera oss um þau? Vér gætum
auðvitað ekki séð neitt þeirra í huganum eins og þau eru,
en ég býst við, að hugleiðingar vorar yrðu eitthvað á
þessa leið: Maður, sem frá blautu barnsbeini hefur
aldrei viljað vera annað en listamaður og aldrei vikið
hársbreidd frá þeirri ætlan sinni, hve vonlaus sem
hún virtist, hefur sjálfsagt eitthvað til þess. Maður, sem
frá því hann opnaði augun, hefur verið ástfanginn í ís-
lenzkri náttúru, fundið þar ótæmandi uppsprettu fegurð-
ar og tignar og séð hana í dýrlegum helgiljóma, — maður,
sem hefur alla ævi varðveitt þennan næmleik æskunnar
óskertan og á allt, sem hann sá, mun eiga í sér óþrjótandi
gnótt forms og lita, hvenær sem hann þarf til að taka, og
hann mun vera allra manna íslenzkastur í anda, þar sem
hann er af góðu íslenzku bergi brotinn og hefur mótazt
svona djúpt af íslenzkri náttúru. Maður, sem um áratugi
hefur dvalið erlendis, séð og þaulskoðað helztu listasöfn
Norðurálfu og Vesturálfu heims, getur hins vegar ekki
verið neinn heimalningur. Hann hefur fengið nægan sam-
anburð til þess að finna, hvort það, sem hann sá af er-
lendri list, vakti hjá honum efa um það, að hann væri
sjálfur á réttri leið, og auðvitað hefur hann haft tækifæri
til að kynnast allri þeirri tækni, er til greina gat komið
að beita. — En mest er um það vert, að þessi maður tekur
ekkert gilt, gamalt né nýtt, nema það, sem listamannssam-
vizka hans telur gott og gilt, hvað sem aðrir segja. Hann
er einn af þeim fáu útvöldu, sem segja: „Hér stend ég.
Ég get ekki annað!“ Slíkum mönnum er alltaf vert að
veita athygli. Staðfesta þeirra og þol, trúmennska þeirra
við hugsjón sína bendir á, að þeir standi föstum fótum í
veruleika, sem vert er að kynnast. Þeir eru að færa út
landnám andans á þessari jörð, auðga heiminn að andleg-
um verðmætum. Það verk, er slíkir menn vinna, er þess
eðlis, að aðrir geta ekki að öllu unnið það í þeirra stað.
Þess vegna er það svo mikils virði.
3*