Skírnir - 01.01.1944, Page 44
36
Guðm. Finnbogason
Skírnir
Eitthvað á þessa leið mundum vér hugsa. Og mín sann-
færing er það, að hver, sem gerir sér verk Einars Jóns-
sonar innlíf, muni komast að raun um, að þessar hugleið-
ingar eru ekki út í bláinn.
Vér fögnum því í dag, að Einar Jónsson er enn
lifandi og starfandi meðal vor og heldur enn óskert-
um öllum sínum miklu og góðu gáfum: næmleik og
hreinleik barnssálarinnar, óþrjótandi ímyndunarafli,
stálvilja og starfsorku með þeirri speki, er auðug lífs-
reynsla ein fær veitt. En um leið fögnum vér því, að þjóð
vor hefur, þrátt fyrir allt, borið gæfu til að taka við þess-
um mikla syni sínum og þeim verkum, sem hann hefur
gefið henni — gæfu til að viðurkenna hann, elska hann
og virða, meðan hann er enn með oss. Það ætti að vera
næg trygging þess, að héðan af verði gert allt sem þarf
til þess, að hann fái að njóta sín til hinztu ævistundar, og
svo verði um búið, að verk hans geymist örugg öldum og
óbornum til yndis og vitkunar. En um leið minnumst vér
þess með gleði og þakklæti, að við hlið Einars Jónssonar
stendur enn sú kona, er meiri hluta ævi hans hefur veitt
honum þá stoð og athvarf, er ástrík og göfug eiginkona
ein megnar að veita.
Með þessum orðum bið ég yður, háttvirtu áheyrendur,
að senda með mér prófessor Einari Jónssyni og frú hans
hugskeyti með óskum allrar blessunar í bráð og lengd.