Skírnir - 01.01.1944, Blaðsíða 48
40
Sigurður Nordal
Skírnir
sálmar og erfiljóð, og helzt frá síðari árunum. Er sem
hann hafi þá fremur farið að trassa að færa inn í syrpur
sínar.“ Ef Gísli hefur gert þetta kvæði, hefur hann hlotið
að finna, að það var bezta kvæðið, sem hann hafði ort.
Var því meiri ástæða til þess að færa það inn í syrpuna
sem líklegra var, að vafi yrði á um höfundinn, fyrst það
var ómerkt í Fjölni. Hin kvæðin, sem í því riti eru prent-
uð, hefur hann skráð í syrpu sína. Hann gerir þessa
aths. við Bókasölu, sem þar er kölluð Markús: „Það, sem
mismunar í Fjölni frá þessu, er ekki eftir mig.“ Því fer
auðsjáanlega fjarri, að Gísli hafi verið kærulaus um það,
sem hann orti, eða hitt, hvað honum var eignað og í
hverri mynd.
3) Sumt af því, sem samþykkt var á fundum Fjölnis-
félaga að taka í ritið, kom þar aldrei. Svo var um sögu-
korn úr Þúsund og einni nótt, er Benedikt Gröndal hafði
lagt út (tekið með öllum atkvæðum 5. febr. 1847) og rit-
gerð um kvenbúnað á íslandi eftir G. Th. (26. febr. 1847).
Því er alls ekki víst, að kvæðið, sem Gísli las 19. maí, hafi
nokkurn tíma komið í Fjölni.1)
4) Algengt var, að menn læsu það ekki sjálfir upp á
fundum, sem þeir lögðu til Fjölnis. Má nefna til dæmis,
að á fundi 22. marz 1846 las Gísli Thórarensen upp ævi-
minningu Jónasar, sem Konráð hafði samið (pr. í níunda
ári), og var Konráð þó á fundinum. Að þessu mun síðar
vikið.
5) Þá er að minnast aftur á það, sem mestu máli skiptir
næst hinu, að kvæðið skuli ekki standa í handritum Gísla
Thórarensens. Ef þetta erfikvæði um Jónas Hallgrímsson
væri eftir Gísla, skæri það sig svo úr öllum kveðskap hans,
að með ólíkindum væri. Á því eru engin sömu lýti sem á
öðrum kvæðum hans og engir kostir þess né auðkenni á
þeim. Þetta getur hver maður, sem nokkurt skyn ber á
1) Um erfiljóð Gröndals segir í fundabókinni, að lesið var „kvæði
eftir Jónas heitinn". Um efni kvæðisins eftir Gísla er ekki getið.
Gröndal var á fundinum, þegar kvæði hans var borið upp, en
Brynjólfur Pétursson las það.