Skírnir - 01.01.1944, Page 65
Skírnir
Jónas Hallgrímsson og Heinrich Heine
57
legum eða hvorttveggja, en sumar þeirra eru hinn tær-
asti skáldskapur, eins og þessi:
Gekk ég í Gribbskógi,
gola þaut í blöðum;
örn flýgur yfir,
ormur skríður í mosa;
þá var dauflegt,
er dagskvöldi á
vargar góu
hjá viðarrótum.
Annárs finnst mér blærinn á Salthólmsferð ekki minna á
Heine og þó enn síður á H. C. Andersen, sem gaf út 1829:
„Fodrejse fra Holmens Canal til 0stpynten af Amager i
Aarene 1828 og 1829“. En vel mega þó slík dæmi hafa
komið honum af stað. Annars er það auðvitað alveg ósann-
gjarnt að bera þessa dagbók, sem Jónas hripar niður og
ætlar ekki að komi fyrir annara augu en nokkurra félaga
sinna, saman við þessi rit, sem skrifuð eru af listrænni
undirhyggju og væntanlega með yfirlegu og ætluð til að
fá á almenning með fyndni og íþrótt.
Næsta sumar (1837) er Jónas á ferð á íslandi. Upp úr
þeirri ferð er sprottið kvæði, sem hann yrkir þá, Gunn-
arshólmi. Líkt og í kvæðinu „ísland farsælda frón“ bland-
ast hér saman náttúra íslands og saga, og kveður þó meira
að náttúrulýsingunni; Gunnarshólma má líkja við stórt
og veglegt, vel samsett og litauðugt málverk.
Jónas er þegar í fyrstu kvæðum sínum orðinn mikið
náttúruskáld; þó að aðalefni þeirra sé annað, er allt sam-
ofið myndum úr íslenzkri náttúru; ég nefni sem dæmi
þess ástakvæðin Söknuður og Ferðalok, sem allir kunna.
Vanalegast eru þessar náttúrumyndir gerðar með fáum
dráttum, sem í rauninni vekja fremur hugboð en þau gefi
mynd. Og oft vaknar hugboðið engu síður við lækjarnið
eða goluþyt en við sjónskynjun.
Á fyrri Hafnarárunum (fram að 1839) eru aðalefni
kvæðanna enn sem fyr ekki sjálf náttúran, heldur eru þau
innblásin af ættjarðarást hans, frelsisþrá, lotningu hans