Skírnir - 01.01.1944, Page 84
74
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
og með nokkru móti algyöisleg að eðli. Alveg er þetta aug-
ljóst í lofgerðarorðum Jónasar til sólarinnar. En það býr
miklu víðar undir. Skáldið Halldór Kiljan Laxness hefur
í sinni merkilegu ritgerð um Jónas sagt þau djúpu orð
um Dalvísuna, að hún sé „eins konar litaníukennd upp-
talning á þeim táknum, sem sálarlíf dalbúans er skáldað
úr“. Litaníukennd, einmitt það. Upptalning, þula, sem í
eðli sínu er helgiþula. Upptalning hluta, sem eru heilagir,
vegna þeirrar þátttöku, sem þeir eiga, og þátttöku, sem
þeir veita, í hinum fagra dagsheimi drottins.
Danski bókmenntarýnandinn Paul Y. Rubow hefur
kveðið svo að orði um skáldskap Grundtvigs, að hann sé
„therapeutisk“, lækningargaldur. Fátt er ólíkara en Jón-
as Hallgrímsson og Grundtvig, en hér eiga þeir sammerkt.
Það er einkum auðsætt í hinum síðari kvæðum Jónasar,
hve mikið þau hafa af eðli „ljóða“ þeirra, sem Hávamál
tala um, töfraljóða, ákvæðavísna. Þau voru lækningar-
ljóð sálar í baráttu og nauðum, sálar sem þráði fegurð;
þau urðu lækningarljóð þjóðar í baráttu og nauðum. Það
er eins og í þeim kenni nálægðar hlutanna, sem þau fjalla
um, eins og þeir birtust þessum heiðríka sjáanda. Þau
eru trúarljóð, sem gera þann, sem fer með þau, að þátt-
takanda í fegurð og dýrð dagsheimsins.