Skírnir - 01.01.1944, Page 85
Jón Gíslason
Virgill,
skáld vors og viðreisnar
Inde lupae fulvo nutricis tegmine laetus
Eomulus exeipiet gentem et Mavortia condet
moenia Romanosque suo de nomine dicet.
His ego nec metas rerum nec tempora pono,
imperium sine fine dedi.1)
(Aen. I 275—279.)
Alkunn er sú sögn, að Óðinn hafi látið annað augað
fyrir einn drykk úr Mímisbrunni. Er og eigi fyrir það að
synja, að flest hin æðstu gæði eru dýru verði keypt. Gildir
slíkt um þjóðir jafnt sem einstaklinga. Allir, innlendir
sem erlendir, hafa t. d. lokið upp einum munni um það að
telja íslenzka tungu og fornbókmenntir dýrmætustu eign
vora. Hinu hefur síður verið á loft haldið, við hvaða verði
forfeður vorir keyptu gersemar þessar. Er það og vissu-
lega vel farið, því að þegar um hin stærstu hnoss er að
tefla, ber eigi að vera sínkur á gjaldið. Segir svo í helg-
um fræðum, að himnaríki sé líkt perlu, er menn fórni öllu
fyrir til að eignast. En verð það, er íslendingar hafa orðið
að greiða fyrir tungu sína og sérstæða, óháða menningu,
er svo samtvinnað örlögþáttum þjóðarinnar, að eigi verð-
ur rýnt í þau myrku rök, án þess að menn geri sér þess
gjalds nokkra grein.
1) „Síðan mun Rómúlus, g-Iaður í feldi ylgjarfóstru sinnar, erfa
þjóðina, reisa hina herskáu borgarmúra (þ. e. Róm) og kalla Róm-
verja eftir sínu nafni. Valdi þeirra mun ég hvorki í tíma né rúmi
takmörk setja. Drottinvald hef ég selt þeim í hendur um aldur og
ævi.“ — Þannig lætur Virgill sjálfan Júpíter mæla til Venusar
ástagyðju, er hún gerðist áhyggjufull um afdrif sonar síns, Eneasar.