Skírnir - 01.01.1944, Side 90
80
Jón Gíslason
Skírnir
til Octavianusar sjálfs um bætur eða leiðréttingu. Hlaut
hann bænheyrslu, þótt ekki sé vitað með vissu, hvort hann
fékk aftur sína fornu föðurleifð á Norður-Italíu eða jarð-
eign við Neapel. Svo mikið er víst, að í Neapel dvaldist
hann lengstum. Hann andaðist í Brundisium árið 19 f.
Kr. b., 21. september, á heimleið frá Grikklandi. Var hann
jarðsettur í Neapel, svo sem grafskrift hans hermir:
Mantua me genuit, Calabri rapuere, tenet nunc
Parthenope; cecini pascua rura duces.
„Mantúa ól mig. Kalabrar hrifu mig á braut.
Neapel heldur mér nú. Ég söng um beitilönd, sveitir,
hertoga.“
Á milli tvítugs og þrítugs virðist Virgill þegar orðinn
kunnur fyrir skáldskap. Bókmenntaáhugi heldri manna í
Róm var mikill um þessar mundir. Cicero hafði öðrum
fremur með ritum sínum og ræðum um hin fjölbreyttustu
viðfangsefni unnið það þrekvirki að smíða úr heldur
óþjálli og hrjúfri tungu hermanna, ágjarnra kaupsýslu-
manna og harðsvíraðra stjórnmálamanna hið latínska rit-
mál, einn hinn tilkomumesta búning, sem mannsandinn
hefur nokkru sinni sniðið hugsun sinni. Caesar ritaði
snilldarverkið um Gallastríð. Ekki kvað minna að áhug-
anum á sviði hins bundna máls. Gat varla þann menntað-
an atkvæðamann í Róm, er eigi hefði stælt kraftana við
samningu harmleiks, heflaðra smáljóða eða jafnvel sögu-
ljóða, allt eftir fyrirmyndum grískra snillinga. Við slíkar
aðstæður, úr slíkum jarðvegi spretta oft snilldarverkin.
Þau eru sem blómknappar eða skrúðgreinar útsprungin
á stilkum og stofnum þess áhuga, sem vakir í og gagn-
tekur umhverfi og samtíð. Afreki Virgils á sviði skálda-
málsins latínska má líkja við þrekvirki Ciceros á sviði
ritmálsins. Enginn, sem eftir það orti á latneska tungu,
fór varhluta af áhrifum hans.
Það mun vafalaust hafa verið fyrir skáldfrægð Virgils,
að Octavianus bænheyrði hann og gaf honum aftur bú-
garðinn eða bætti honum hann á annan hátt. Á árunum