Skírnir - 01.01.1944, Side 94
82
Jón Gíslason
Skírnir
þjóðfélagslegrar rangsleitni og sundrungar sauð hatrið,
sem gerði allt loft lævi blandið. Ef hrinda átti aftur á
flot og koma á réttan kjöl hinu tignarlega fleyi hins róm-
verska ríkis, þurfti byr í segl frá nýjum hugsjónum, nýja
trú á lífið. Hér þurfti enn stærri átaka við en stjórnmála-
menn, fjármálamenn og hermenn gátu til vegar komið, af
því að sjúkdómurinn, sem ríkið og þjóðin voru haldin af,
var einnig andlegs eðlis. Á þessari stundu neyðarinnar
þeytti Virgill skáldlúður sinn og boðaði von og nýtt þjóð-
lífsvor. Hann er því eigi aðeins skáld og spámaður, heldur
má með réttu telja hann annan höfund keisaraveldisins
rómverska.
Hann flutti þjóð sinni þann boðskap, að yfirráð Róma-
borgar væri heilagt hlutverk, er forsjónin hefði frá upp-
hafi vega fyrirhugað henni. Allur straumur sögunnar
hefði hnigið í þann farveg að guðdómlegri handleiðslu.
Hér skyldi það veldi rísa af grunni, er engin takmörk
væri sett í tíma eða rúmi:
Ego nec metas rerum nec tempora pono,
eru boð frá drottni himnanna. En hlutverk Rómverjans,
Rómalýðs í sinni eilífu veru, er tvíþætt, bæði
regere imperio populos,
að stjórna þjóðunum með drottinvaldi, og
paci imponere morem,
að setja svipmót siðmenningarinnar á eindrægnina. Hinn
siðferðilegi og stjórnarfarslegi gr.undvöllur hinnar nýju
aldar skal vera alger samruni hins bezta, sem til er í
Ítalíu og Róm. Rómverskur máttur skal skrýðast ítalskri
guðrækni, og hinar afræktu frjólendur sveitanna fóstra
nýja kynslóð, er drukkið hefur í sig nýjan lífsþrótt og
nýja von við skaut hinnar endurnýjandi ítölsku jarðar.
í síðustu bók Eneasarkviðu stendur þessi tignarlega
ljóðlína:
Sit Romana potens Itala virtute propago,
að ítalskur karlmennskudugur sé máttugur í hinu róm-
verska afsprengi. Ítalía og Róm, það eru stoðirnar undir
hinu eilífa veldi friðar og velmegunar.