Skírnir - 01.01.1944, Page 96
84
Jón Gíslason
Skírnir
Hin ytri tákn valdsins voru honum ekkert keppikefli. í
hljóðlátu striti reyndi hann að sameina alla beztu menn
samtíðarinnar í viðreisnarstarfinu. Stjórn hinna hrjáðu
skattlanda var komið á nýjan grundvöll. Hin trausta
embættismannastétt keisaratímanna var mynduð. Fjár-
málum og dómsmálum komið í heilbrigðara horf. Áuður
og velmegun ríkisins óx í skjóli friðar og öryggis. Á
Italíu var landbúnaðurinn efldur, numin aftur þau héruð,
sem lagzt höfðu í eyði í borgarastyrjöldunum. Ýmiss
konar löggjöf var ætlað að stuðla að siðferðilegri endur-
fæðingu þjóðarinnar. Að trúnni á hina fornu guði var
hlúð og dyggðir þær, sem fyrrum höfðu verið undirstað-
an að veldi Rómar, efldar. Vegakerfi ríkisins var endur-
bætt, póstsamgöngum komið á fót. í Rómaborg reisti
Ágústus fjölda stórhýsa. Gat hann með sanni sagt, að
hann hefði komið að borginni úr múrsteini, en skilið við
hana úr marmara. Hið mikla markmið, sem Ágústus setti
sér, var að bjarga öllu, sem bjargað varð, úr hinu ægi-
lega skipbroti, sem rómverska lýðveldið hafði beðið. Ekki
var vonin með öllu glötuð. Ný kynslóð var að vaxa upp.
Andi, framtak og snilli lifðu af. Menn voru reiðubúnir að
þurrka af sér hörmungar fortíðarinnar sem ægilega mar-
tröð og beita öllu afli að viðreisnarstarfinu. Pax Augusta,
friður Ágústusar, var sem roði nýrrar aldar.
Þrátt fyrir ógnir borgarastyrjaldanna á síðustu öld
lýðveldisins hafði Róm sogað til sín í dansandi hringiðu
stórborgarinnar allan auð efnis og anda hinna hnignandi
menningarstöðva grískumælandi landa. Ágjarnir herfor-
ingjar, kaupsýslumenn og landstjórar létu greipar sópa
um hina dýrlegu listafjársjóðu þessara listauðgu, forn-
helgu staða eigi síður en féhirzlur. Alls konar andans
menn bárust og með hinum mislita fólksstraum, sem stöð-
ugt lá úr skattlöndunum til höfuðborgar heimsins. Og af
því að menn fundu, að þeir stigu eins konar Hrunadans á
glóðum þess vítis, sem á næsta augnabliki kynni að gleypa
þá, fór lífið sjálft hamförum í öllum þess margbreytilegu
myndum. Menn gerðust eigi aðeins gírugir í að njóta