Skírnir - 01.01.1944, Blaðsíða 108
96
Jón Gíslason
Skírnir
lætur bregða fyrir hann hinni fríðu sveit hans eigin af-
komenda, hetjum og stjórnskörungum hins rómverska
kynþáttar, unz hámarkinu er náð í friðarríki Ágústusar.
Eins og ráða má af upptalningu þessari, kennir hér
margra grasa. Hér er að finna kenningu þá, sem Platon
flutti, um refsingu og umbun eftir dauðann, kreddu Pýþa-
górasar um sálnaflakk eða endurholdgun og hugmyndir
Stóuspekinga um heimssálina. Allir spekingar, liststefnur
og tímabil fornaldar eiga líka stein í hinni miklu hleðslu
kviðunnar. Hinar almennu og skjótu vinsældir, sem Ene-
asarkviða átti strax að fagna, voru eigi sízt því að þakka,
að hér var eitthvað fyrir alla, þótt hinu sundurleita og
fjölþætta efni væri skipað í samræmda heild. Hinir lærðu
hittu hér við hvert fótmál gamla kunningja, og hinir
ólærðu jusu fræðslu af þekkingarbrunni Ijóðanna.
Þungamiðja kviðunnar er Eneas, hetjan, sem af hlýðni
og auðmýkt við guðlega forsjón tekst háleitt hlutverk á
hendur, að leita hins fyrirheitna lands og gerast ættfaðir
hinnar útvöldu þjóðar. Þessari hugsjón verður allt að
lúta. Um hina staðföstu hetju leikur brimgnýr mannlegs
lífs með ástarunaði sínum og ástarkvöl, vopnabraki og
friðmálum, órofatryggð og lævíslegum svikum. í fyrri
bókunum sex lætur skáldið lesandann fylgjast með sögu-
hetjunni um margvísleg sjónarsvið Asíu, Afríku og
Evrópu, unz hann leiðir hann inn á þær slóðir, sem Róm-
verjar höfðu daglega fyrir augum, hið fornhelga um-
hverfi sjálfrar Rómaborgar. Af næmri listtækni lætur
hann skiptast á skin og skúr, gleði og sorg. Fornar sið-
venjur og sagnir þjóðarinnar eru notaðar sem ívaf.
Föðurlandsást, skírð og hert í eldi trúar á guðdómlega
handleiðslu, er styrkasti þáttur Eneasarkviðu. Stíll skálds-
ins öðlast þá mestan þrótt og tign, er það syngur um Róm,
frægð hennar, trú hennar og vald. En þá fatast því helzt
flugið, er lýsa skal orustum og ævintýralegum hrakning-
um um láð og lög. Eneas er og allra persónanna hugstæð-
astur, af því að hann er holdi klædd hugsjón Rómverjans
um það, hvernig þjóðarleiðtoga beri að vera. Hann lifir