Skírnir - 01.01.1944, Síða 164
152
Árni Kristjánsson
Skírnir
að efni til fjarskyldara riddarasögum en það, sem tekið
hefur verið til athugunar hér á undan, þótt e. t. v. megi
finna einhver smáatriði, sem rekja mætti til þeirra, og
get ég þó dregið það í efa. Það er því bert, að líking þessa
sögukorns við riddarasögur er næsta lítil, þótt hún beri
þeirra nokkur merki eins og leitazt hefur verið við að
benda á. En hvert skal þá skyggnast til að marka henni
stað?
Ýmsir staðir í sögunni bera augljóst vitni um nokkuð
ungan aldur, og má þar t. d. benda á Lútherstrúaráhuga
Parmesar, og í lok sögunnar í Reykjavíkurútgáfunni
stendur, að hún hafi gerzt skömmu eftir daga Lúthers
(Gimliútgáfan hefur þá klausu ekki).
En það er fleira en þetta, sem við er að styðjast. Próf.
Sigurður Nordal hefur bent mér á, að finna má í sögunni
nokkur einkenni Robinsonsbókmennta, og er rétt að taka
það til nánari athugunar.
Árið 1719 kom Robinson Crusoe eftir Daniel Defoe út
á frummálinu og vakti feiknamikla athygli, sem sjá má
af því, að fregnir af sögu þessari bárust líkt og sinueldur
til nágrannalandanna, og þó fremur af hinu, hve fljótt hún
var þýdd á önnur tungumál, og hver kepptist nú um ann-
an þveran við að líkja eftir henni. Árið 1720 kemur hún
út í þýzkri þýðingu, og í dönsku tímariti, sem kennt er við
Wieland, De lærde Tidender, er þess getið þegar árið 1723,
að um þær mundir komi út fjöldi Robinsonssagna. Árið
eftir er ein nafngreind sérstaklega, það er saga Gustavs
Landkrons, sem gefin er út í Frankfurt 1724, og á næstu
árum má heita næstum óslitinn straumur af sögum af
þessu tagi.1)
Sagan af Robinson Crusoe er ekki nema að sumu leyti
frumlegt verk. Hún er miklu fremur nýr kvistur á stórum
meiði, sem búinn var að eiga sér alllangan aldur. Það
atriði sögunnar, sem vakti mesta athygli, var eyðieyjan,
1) Sjá Hakon Stangerup: Romanen i Danmark, Khöfn 1936.