Skírnir - 01.01.1944, Síða 174
162
Árni Kristjánsson
Skírnir
es tekur á móti, er taliS vera snjóhvítt,1) og er þess ekki
getið um neinn annan. Hans Egede segir í Grænlandslýs-
ingu sinni frá 1741, að Eskimóarnir séu brúnleitir á hör-
und, en þó séu sumir þeirra vel hvítir,2) og má vera, að
lýsing Parm. byggist á slíkri umsögn, en það er þó e. t. v.
athyglisvert, að í Heimskringlu hinni yngri, þ. e.
landaskipunarfræði eftir Þjóðverjann Gottfried Schultze
(Hrappsey 1779) er þess getið um Indíána, að þeir séu
brúnir á hörund, en fæddir hvítir.3) Myndin, sem dregin
er upp af landinu með jökla að fjallabaki, svo langt sem
augað eygir, minnir að vísu allmjög á Grænland, en eftir
áttunum, sem gefnar eru í lýsingunni, yrði það þá að
vera Eystribyggð. Hins vegar eru landkostir gerðir hér
meiri en trúlegt er, að menn hafi álitið vera norður þar,
og á hafís er ekki minnzt, en lífinu þarna lýst eins og það
sé sérstaklega notalegt og menn hafi lítið af búksorgum
að segja. Að öllu þessu athuguðu virðist mér sennilegast,
að hér sé ekki átt við Grænland beinlínis, heldur sé sögu-
höfundur að búa til land. Hann lætur í veðri vaka, að það
sé norðarlega í Ameríku, en lætur sér landafræðina ann-
ars í léttu rúmi liggja, og dregur svo líkinguna af Græn-
landi, sem hann hefur allhaldgóða vitneskju um, en bland-
ar þó inn í lýsinguna ýmsu úr íslenzkum staðháttum,
sumpart e. t. v. af fáfræði, en þó öllu fremur af ásettu
ráði.
Grænland hefur verið ofarlega í hugum margra Islend-
inga um þessar mundir, og lágu til þess orsakir, sem nú
skal greina.
Á árunum 1727—30, síðustu ríkisstjórnarárum Frið-
riks konungs 4., er gerð tilraun af hálfu stjórnarinnar til
1) Parm. Rv.útg. (1884), bls. 26.
2) Grönlands Perlustration (Höfn 1741), bls. 66.
3) Þótt landaskipunarfræðin komi ekki út fyrr en eftir að sagan
hefur verið skráð, hefði þetta atriði getað borizt frá handriti þýð-
ingarinnar eða þýzka frumritinu, og ef eitthvað væri upp úr því
leggjandi, benti það helzt til þess, að Parm. hafi orðið til við Breiða-
fjörð, sbr. það, sem síðar segir.