Skírnir - 01.01.1944, Page 180
Halldór Halldórsson
Að draga seiminn
í íslenzku úir og grúir af orðatiltækjum. Mörg þeirra
eru svo auðskilin og skýrð, að enginn þarf að efast um
uppruna þeirra. Önnur eru erfiðari viðfangs og mörg svo
torráðin, að á þeim fæst sennilega aldrei viðunandi skýr-
ing. Orðatiltækin eru af mörgum og misjöfnum rótum
runnin, en hér verður ekki um það efni fjallað, því að ætl-
unin er aðeins sú að skýra uppruna eins orðtaks, sem
menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir, á hvern hátt
til væri komið. Þetta er orðatiltækið að draga seiminn.
Um merkingu orðtaksins er óþarft að fjölyrða, því að hún
er öllum kunn, sem á annað borð bera eitthvert skyn á
íslenzkt mál, en rétt er þó að geta þess, að það er notað
um söngkenndan drátt við framburð sérhljóða og drag-
andi í söng, einkum rímnakveðskap.
Orðtak þetta kemur ekki fyrir í fornu ritmáli, þótt títt
sé í nútíðarmálinu. Þarf það þó engan veginn að vera
ungt, þótt ekki hafi það komizt á bókfellið. Tilviljanir
einar ráða oft slíku.
Finnur Jónsson drepur á orðtak þetta í Orðakveri sínu.
Telur hann uppruna þess óvissan, en stingur upp á, að
seimur merki hér „band“ og sé skylt orðinu sími. Ber
hann þetta saman við no. seimen „silalegur“ og draga
sime „ganga hægt og silalega“ (Orðakver 68. bls.).
Af þessu má marka, að F. J. hefur talið orðtakið mynd-
hverft (metaphoriskt), en hins vegar erfitt að sjá ná-
kvæmlega, hvernig hann hefur hugsað sér merkingarþró-
unina, t. d. hvers konar band seimur var að hans hyggju
og hvernig hægt var að líkja dragandi í tali og söng við