Skírnir - 01.01.1944, Page 185
Einar Ól. Sveinsson
Lestrarkunnátta Islendinga í fornöld
I.
Margt hefur verið gert til að skýra hinar fornu bók-
menntir íslendinga, og er það meira en maklegt. Fornbók-
menntirnar eru einn hyrningarsteinninn undir sjálfstæði
og jafnvel tilveru íslenzku þjóðarinnar, þær hafa haft
veglegt hlutverk að vinna í menningu sumra annara þjóða,
einkum hinna norrænu, og væri það löng saga. Allt það,
sem á einhvern hátt getur skýrt þær, uppruna þeirra og
umhverfi, á því nokkurn rétt á sér.
Nokkuð af fornbókmenntunum eru kvæði, sem lifðu í
minni manna, bæði þeirra, er ortu, og hinna, er námu, en
tilorðning þeirra og varðveizla studdist í fyrstu ekki við
bókstafi á dauðum hlutum. Sumt á vissulega að einhverju
rætur að rekja til munnlegra frásagna. En allt er þetta til
vor komið sem bókmenntir, og þorri þess, sem skráð er í
óbundnu máli, hefur ekki verið til í þeirri mynd, sem það
er nú, fyr en einhver rithöfundur samdi það, skráði það
eða las það öðrum fyrir til skrásetningar á vaxspjöld eða
bókfell. Vera má, að íslenzkar rannsóknir frá þessari öld
hafi gert þetta ljósara en áður var. Sú skoðun hefur stund-
um gert vart við sig og er enn nokkuð í tízku sumstaðar
erlendis, að fornsögurnar hafi lifað fullsamdar á vörum
manna og varðveitzt þannig frá kynslóð til kynslóðar, og
hlutverk skrásetjandans hafi ekki verið ýkja-mikið meira
en vélarinnar, sem grefur á grammófónplötu orð ræðu-
manns. Þessi kenning er ágæt svo lengi sem henni er siglt
fram hjá skerjum hinna einstöku varðveittu verka, en
jafnskjótt sem hún kemur við þau, brotnar hún í spón. Því
að í fornsögunum, þeim ritum, sem til eru, getur hver-