Skírnir - 01.01.1944, Page 201
Skírnir
Lestrarkunnátta íslendinga í fornöld
189
Ekki setti maður svo kirkju á bæ sínum, — og að því gat
verið drjúgur fjárhagslegur hagnaður, — að ekki væri
skráður máldagi um eignir hennar. Nú gat prestur, sem
bóndi fékk til kirkjunnar, lesið honum máldagann, þegar
þess þurfti við, en sjálfs er höndin hollust, var einfaldara
að þurfa ekki að leita til annara um það. Eftir að „ritöld“
hófst, fór það brátt að tíðkast að færa hvers konar samn-
inga og samþykktir á skrá. Þannig er til rituð skipun um
almenningsfjörur í Hornafirði frá dögum Sæmundar
Ormssonar (frá því um 1245), og er það tilviljun, að þessi
eina héraðaskipun frá hinum fornu goðum er varðveitt.
Þá eru til brot af reikningum, samþykktir um verðlag, að
ótöldum gjafabréfum o. s. frv. Brot ein eru varðveitt af
öllum þeim skjölum, sem gerð hafa verið á þessum tíma,
en þau sýna þó nógsamlega, hve mikil þörf öllum þeim,
sem í nokkru veraldarvastri stóðu, var á því að kunna að
lesa og skrifa.
Mikið spor í þessa átt var stigið, þegar veraldleg lög
landsins voru í fyrsta sinn færð í letur, veturinn 1117-18.
Ari fróði segir frá því á þessa leið: „Et fyrsta sumar, es
Bergþórr sagði lög upp, vas nýmæli þat gört, at lög ór
skyldi skrifa á bók at Hafliða Mássonar of vetrinn eptir
at sögu ok umbráði þeira Bergþórs ok annarra spakra
manna, þeira es til þess váru teknir. Skyldu þeir görva
nýmæli þau öll í lögum, es þeim litisk þau betri an en
fornu lög. Skyldi þau segja upp et næsta sumar eptir í
lögréttu ok þau öll halda, es enn meiri hlutr manna mælti
þá eigi gegn. En þat varð at framfara, at þá vas skrifaðr
Yígslóði ok margt annat í lögum ok sagt upp í lögréttu af
kennimönnum of sumarit eptir, en þat líkaði öllum vel, ok
mælti því manngi í gegn.“ Eftir þetta er engum blöðum
um það að fletta, að lögin hafa verið lesin upp af bók.
Því voru kennimenn fengnir til uppsögu laganna í þetta
sinn, að ekki hefur þótt vera völ annara, sem færir væru
að lesa þau upp af bókinni (sýnir þetta nokkurn veginn
ljóslega, að ritað var með latínuletri). Má vera, að þessu
hafi verið haldið áfram, meðan Bergþór hafði lögsögu.