Skírnir - 01.01.1944, Síða 204
192
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
bréfit“, og stóð á því, að það væri frá Oddi Álasyni og
Þórdísi Snorradóttur, og var Ásgrímur þar hvattur til að
taka höndum saman við þau móti Órækju. Ásgrímur sendi
Ó r æ k j u bréfið, „en er hann sá“ það, þótti honum í því
fjörráð við sig og lét drepa Odd. „Þat er flestra manna
sögn, at Magnús prestr ok Grunnvíkingar hafi látit gera
bréf þat, er kom til Ásgríms."1) Af þessu er Ijóst, að bæði
Ásgrímur og Órækja voru læsir, og telur söguritarinn
það svo sem sjálfsagt.2)
Árið 1246 er getið um bréf frá Brandi Kolbeins-
syni til Gizurar Þorvaldssonar.3) Ekkert verður af orða-
laginu ráðið, hver skráð hefur.
Oddur Þórarinsson hefur verið læs, svo sem sjá
má af frásögninni af honum nóttina áður en hann var
veginn (14. jan. 1255) : „Oddr svaf lítit um nóttina ok
söng lengi ok las psaltara sinn.“4)
Sama er að segja um Þorvarð bróður hans. Tvívegis
er getið um bréf frá honum, án þess tiltekið sé, hver skrif-
að hafi.5) En svo er frásögn af bréfi, sem Árni biskup
sendi Þorvarði, og tekur hún af öll tvímæli: „Síðan fekk
byskup mann til at bera bréfit til Keldna. Þorvarðr lauk
upp bréfit ok las yfir . . . Ok er Þorvarðr hafði lesit þessi
orð, varð hann reiðr.“6)
Um Þorgils skarða segir ekki jafn-berum orðum,
að hann hafi lesið bréf sín sjálfur, en af þeim úir svo og
grúir, að óhugsandi er annað en hann hafi verið læs. Áður
var getið þess, er Þorgils lét skrifa Hákoni konungi á
vaxspjöld. Haustið 1252 er getið bréfs Brands ábóta til
Þorgils, er Klængur Skeggjason færði honum, og bréfs til
hans frá Önundi biskupsfrænda. í ársbyrjun 1253 kemur
1) St. II 218—21.
2) Um lestrarkunnáttu Órækju eða manna hans sbr. líka St. II
359.
3) St. III 122.
4) St. III 327.
5) St. IV 1; Bisk. I 705—06.
6) Bisk. I 705.