Skírnir - 01.01.1954, Page 54
50
G. Turville-Petre
Skírnir
Braga. En ályktanir dregnar af svona veikum rökum geta
aldrei verið áreiðanlegar.
Rétt er að geta þess, að í bók sinni, Corpus Poeticum Boreale
(II, bls. 2 o. áfr.), sem aldrei hefir vakið svo mikla athygli
sem skyldi, hefir Guðbrandur Vigfússon komizt að þeirri
niðurstöðu, að Bragi hafi verið uppi um 835—900.
Elzta kvæðið eftir Braga, sem varðveitt er, heitir Ragnars-
drápa. Átta vísur og ellefu vísuhelmingar þess eru geymdir
í Snorra Eddu. Af þeim má ráða, að kvæðið hefir verið ort
til heiðurs höfðingja einum, Ragnari Sigurðarsyni. Miðalda-
sagnfræðingar töldu þennan höfðingja sama mann og
hinn fræga danska víking, Ragnar loðbrók. Margir seinni
tíma fræðimenn hafa neitað, að þetta sé sami maðurinn, og
má vel vera, að þeir hafi rétt fyrir sér. Samt er þetta ekki
óhugsanlegt. Þó að hann væri Dani, má vera, að Ragnar
loðbrók hafi átt ríki í Noregi. Lítið er sagt um hann í áreiðan-
legum heimildum nema það, að hann hafi siglt upp fljótið
Signu og synir hans hafi staðið í bardögum í Englandi í tólf
ár, frá 865 til 877.
Flestir eru sammála um það, að vísurnar, sem eru eignaðar
Braga, séu hinar elztu, sem varðveittar eru undir nokkrum
bragarhætti dróttkvæðaskáldanna. Þær eru ortar undir drótt-
kvæðum hætti, sem er þegar fullþroskaður, þó að reglurnar,
sem Bragi fylgir, séu ekki eins strangar eins og hjá sumum
seinni tíma skáldum. Sumir hafa gizkað á, að til hafi verið
eldri skáld, en kvæði þeirra séu liðin undir lok. Ég efast
um, að þetta sé rétt. Ef til vill mætti draga þá ályktun af
heimildunum, að Bragi hafi verið upphafsmaður dróttkvæðs
háttar og annarra hátta hirðskálda.
Islenzkir goðfræðingar á miðöld ræða um goð skáldskapar,
sem þeir nefna Braga. Þrátt fyrir röksemdarfærslu J. de
Vries17 og annarra fræðimanna er ekkert í heimildunum,
sem sýnir, að guðinn Bragi hafi nokkurn tíma verið dýrkaður.
Hann getur varla verið annar en Bragi skáld, sem hefir orðið
að goði í huga seinni tíma manna, af því að hann hafði gert
þessa miklu byltingu í braglistinni.