Skírnir - 01.01.1954, Síða 57
Skírnir
Um dróttkvæði og írskan kveðskap
53
Stormur hefir skollið á, ótt vetrarveður hefir lamið oss,
það hefir komið yfir hafið ...
tJthafið flæðir, sjórinn er bólginn, skemmtilegur er skipa-
heimur ...
. .. Svanalitur hjúpar son Mils (Irland) með liði hans,
lokkar konu Manannans þyrlast til og frá ...“
I handritinu, þar sem þetta kvæði er varðveitt, er það
eignað Rumund mac Colmain, sem dó árið 747, en fræðimenn
eru sammála um, að kvæðið sé mun yngra og líklega ekki
ort fyrr en á tíundu eða jafnvel á elleftu öld. En hvað sem
því líður, hefir höfundur kvæðisins ef til vill heyrt til þeim
flokki skálda, sem kenndu norrænum mönnum að skoða kveð-
skap sem iðn, sem gaf skáldunum rétt til að krefja mikilla
launa eða verðmætra gersima.
Mér þykir erfitt að komast hjá þeirri niðurstöðu, að bragar-
hættir dróttkvæðaskáldanna hafi fyrst verið notaðir á seinni
árum níundu aldar og upphafsmenn þeirra hafi verið skáld
úr Vestur-Noregi. En ef svo er, hafa fyrstu dróttkvæða-
skáldin heyrt til þeim þjóðflokki norrænna manna, sem stóð
í nánustu sambandi við Ira Bragarhættir dróttkvæðaskáld-
anna voru í mörgum höfuðatriðum ólíkir hinum forn-
germönsku. Ýmis einkenni þeirra má rekja til hinna tilgerðar-
legu hátta írsku skáldanna. En þessir samstöfubundnu hættir
Ira voru í öndverðu aðallega runnir frá þeim, sem notaðir
voru í þjóðkvæðum og sálmum á latínu. Sumar þeirra nýj-
unga, sem norrænu hirðskáldin hafa tekið upp, mætti líka
rekja beint til sálma á latínu, sem skáld víkinga höfðu hlustað
á í Bretlandseyjum. Lokarímið hafa hirðskáldin líklega tekið
upp úr slíkum kveðskap á latínu.
Ég hefi ekki borið saman efnið í norrænum kveðskap eða
anda þeirra saman við efni og anda írska kveðskaparins. Mis-
munurinn er mikill, en ekki er það skoðun mín, að Irar hafi
kennt hirðskáldunum, hvert ætti að vera efni kvæðanna. Irar
hafa heldur kennt norrænum mönnum, hvernig ætti að kom-
ast að orði. Irsk kvæði, sem ég hefi lesið, eru fyrst og fremst
ljóðræn og fingerð, en norræn kvæði eru oft stirð og hörð.