Skírnir - 01.01.1954, Síða 60
AGNAR ÞÓRÐARSON:
NOKKRAR HUGLEIÐINGAR UM
SKÁLDSAGNAGERÐ.
Því er stundum haldið fram, að skáldsagan, eins og hún
hefur þróazt undanfarna áratugi, sé orðin úrelt og dagar henn-
ar séu senn taldir.
Það er mál sumra manna, að hún sé orðin á eftir tímanum,
þær aðstæður, sem skáldsagnalestur hljóti að miðast við, kyrrð
og næði í tómstundum, séu ekki lengur fyrir hendi, og aðrar
nýjungar, svo sem sjónvarp, myndablöð og kvikmyndir, hafi
tekið við hlutverki hennar — þess verði skammt að bíða, að
fólk lesi yfirleitt ekki skáldsögur.
Aðrir ásaka skáldin um andleysi eða getuleysi og fyrir það,
að þau standi langt að baki skáldakynslóð nítjándu aldar, sem
bæði var áhrifamikil og mikilsvirt af almenningi.
Eru þær fullyrðingar þá oft rökstuddar með tilvitnunum
í verk ýmissa höfimda, sem hafa ekki fyrr en löngu síðar
hlotið viðurkenningu.
Að sjálfsögðu er þó rétt og skylt að setja markið hátt og
brýna skáldin, en hér er líka margs annars að gæta.
Blaðamennskan, sem var rétt í bernsku á nítjándu öld og því
bókmenntunum lítt skæður keppinautur, er nú orðin svo
tröllaukin og víðtæk, að hún hefur ef til vill meiri áhrif á
daglegar hugsanir manna en nokkuð annað. Tímarit og blöð
berast daglega á hvert heimili, full af stórtíðindum, ýmiss
konar hugvekjum og æsandi lestrarefni, svo að margir fá
nægan skammt af lesmáli þar.
Fólk kemst beinlínis ekki yfir að lesa annað en blöðin. Og
þó að þar séu að vísu oft skáldsögur, þá er meginið af þeim
reyfarar eða ástasögur, þar sem sætsúpan flóir yfir alla
barma, og geta því alls ekki talizt til alvarlegra bókmennta.
fslendingar að fornu kölluðu slíkar sögur lygisögur, af þvi
að þeir gátu engan trúnað á þær lagt.