Skírnir - 01.01.1954, Síða 64
60 Agnar Þórðarson Skírnir
undir niðri býr þó viðkvæmni, sem hann reynir að hafa
af sér.
Allt þetta er nýtt í bókmenntunum, og þessi kynslóð gat
notið þess um skeið að hafa steypt hinum fornu goðum af
stalli. Síðan kemur heimsstyrjöldin síðari, stríð tekur við af
stríði með aðeins stuttu hléi milli þátta.
Skáld þeirrar kynslóðar hafa enga guði til að steypa, —
og innan um allar rústirnar fara þau að leita að „einhverju“,
sem geti vakið hjá þeim nýja trú á manninn. Sum þeirra
snúa sér að dulspeki, önnur hafa socialismann enn að leið-
arljósi.
Þessi kynslóð gerir sér engar tálvonir, hún lætur sér ekk-
ert blöskra. Hún er staðreyndanna barn og metur alla hluti
afstætt, þannig að það sé undir atvikum komið, hvort mað-
urinn sé góður eða illur, hlutur gagnlegur eða óþarfur.
Hún lítur á kynferðismál og almennt siðferði sem einka-
mál hvers eins, samband manns og konu sé mjög hversdags-
legt fyrirbæri, í rauninni sízt hugtækara en samband manns
við mann, og kemur það hvað ljóslegast fram í því, að í
ýmsum nútímaskáldsögum er kynvilla komin í stað eðlilegs
ástalifs.
Þessi kynslóð reynir ekki að hneyksla — enda enginn leng-
ur, sem lætur hneykslast, nema einstöku eftirlegukindur, —
og hún hvorki þekkir né viðurkennir neitt, sem henni er
heilagt. Þess vegna er ógerningur að ofbjóða lienni, þaðan
af síður að það veki hjá henni sjálfsvorkunn og tilfinninga-
semi eins og hjá kynslóð Ernest Hemingways. -—
Hinn algildi og sameiginlegi siðferðisgrundvöllur fyrri tíð-
ar hefur orðið fyrir þvilikum skakkaföllum, að hver einstak-
lingur verður nú á eigin spýtur að finna fast land undir
fætur sér, ef hann á að geta horfzt í augu við tilveru sjálfs
sín.
Átök stórveldanna eitra loftið ofstæki og mannhatri, svo að
hver sá, sem vill ekki ruglast í ríminu, verður á eigin spýtur
að reyna að finna sannindin í hverju máli. Þannig gerist það,
að ýmsar gamlar og gleymdar dygðir geta öðlazt nýtt gildi i
verkum sumra nútímahöfunda.