Skírnir - 01.01.1954, Síða 68
64
Agnar Þórðarson
Skírnir
Það þarf líka að geta hugsað djúpt og sett fram hugsanir
sínar í skýrum myndum og táknum.
Margir nútímahöfundar hafa notfært sér þessa aðferð, að
fela á bak við aðra sögu það, sem þeir eru í rauninni að tala
um, svo að lesandinn verður sjálfur að draga sínar ályktanir
og rata úr því völundarhúsi, sem skáldið hefur leitt hann í,
og verða virkur þátttakandi í sögunni.
Sumir höfundar, eins og Sartre og Camus, byggja sögur
sínar á heimspekiskoðun, sem er ekki öllum jafnaðgengileg.
Þannig er mjög vafasamt, að lesendur almennt geti litið á
söguhetjuna í Gestinum sem fulltrúa nútímamannsins í ein-
stæðingsskap sínum og tómlæti eða þeim finnist existential-
isminn koma sér nokkuð við með allar röksemdaleiðslurnar
um frjálst viljaval. Eins geta trúarvangaveltur Grahams
Greenes legið á milli hluta, ef lesandinn trúir hvorki á frels-
un né hreinsunareldinn. Slíkt er óþarfi að staldra við um of.
Þessar sögur eru skrifaðar af mjög færum höfundum, sem
kunna að skapa söguheild, en hin dulda merking vekur þó
alltaf hugboð og grun, er gefur verkum þeirra meiri dýpt og
fyllingu en ella hefði orðið.
Hjá öðrum höfundum eru táknin augljósari, til að mynda í
Dvergnum eftir Lagerkvist, þar sem dvergurinn, persónu-
gervingur mannvonzkunnar, segir við sjálfan sig um furstann
— Enginn er stór andspænis dverg sínum, — eða hjá Hans
Kirk, þar sem persónurnar eru fulltrúar þjóðfélagsstéttanna.
En allar þessar sögur sameina það að geta verið fyrir al-
menning engu síður en fyrir þá vandfýsnustu.
Þær geta verið spennandi og viðburðaríkar eins og hjá
Rex Warner og um leið veitt þá fullnægju, sem úrvalsbók-
menntir einar gera, er lesandinn finnur, að skynjun hans á
mannlífinu hefur stækkað og dýpkað og hann kemur skírari
úr eldvígslu skáldsins.
Það mun því óhætt að fullyrða, að þrátt fyrir hina geysi-
hörðu samkeppni, sem skáldsagan á að stríða við í blaða- og
tímaritaflóði líðandi stundar, þá er hún samt enn þess megn-
ug að raska ró okkar í hinum þunga svefni vanans og tregð-
unnar, þegar sjálfsvitundin mókir í hversdagslegri önn.