Skírnir - 01.01.1954, Side 78
74
Halldór Hermannsson
Skírnir
þeirri þýðingu, en liún brann víst 1728. Annað eintak var þó
eftir á Stangarlandi, en það mun Árni Magnússon hafa brennt
1712 með öðrum þýðingum Þormóðs.
Friðrik þriðji dó 9. febrúar 1670, og þá mun staða Þormóðs
hafa verið lögð niður, eins og títt var við konungaskipti. Vorið
1671 fór hann til íslands að krefja arfs eftir Torfa föður sinn,
sem dáið hafði 1665, og Sigurð bróður sinn, sem dó 1670.
Dvaldi hann þar um sumarið, og telja sumir, að hann hafi
þá safnað þar fornum fræðum, en Jón Eiríksson dregur það
í efa. Hann fór þaðan um haustið með Höfða- eða Skaga-
strandarskipi. Sjóferðir Þormóðs frá Islandi höfðu áður orðið
nokkuð ævintýralegar, en þessi átti að verða hin síðasta og
sú versta. Skipið fór til Amsterdam, en þaðan tók hann skip,
sem átti að fara til Kaupmannahafnar, en það strandaði við
Skagann, og björguðust allir menn, en allt annað fórst. Þor-
móður komst þaðan yfir land til Árósa og fór þar í skip, sem
átti að fara til Sjálands. Þeir hrepptu hið mesta óveður og voru
á sjó í tvo daga án matar og drykkjar og lentu loks við Stavns
á Sámsey og fóru þar í gistihús og voru þar um nóttina.
Það varð söguleg nótt, og hvað þá gerðist, þekkjum við nú
af dómi landsþingsins í Viborg, af bænarskrá Þormóðs til
konungs um náðun, af meðmælingarbréfi Jörgens Bjelkes,
æðsta valdsmanns á Sámsey, með bænarskránni og af áliti
hæstaréttar. Jón Eiríksson segist hvergi hafa getað fundið
neitt um vitnaleiðsluna og málfærsluna í Sámsey annað en
dóm birkifógetans, og var það að vonum, því að það hafði
allt verið eyðilagt. Svo er mál með vexti, að öll málsskjölin
frá Sámsey hafa komizt í hendur Þormóðs, hvernig sem á
því hefur staðið. Hann geymdi þau, og eftir dauða hans sendi
ekkja hans þau vorið 1721 til Árna Magnússonar, og setti
hann þau í safn sitt, og voru þau í safninu, þegar það var
flutt í Sívalaturn. En þegar Hans Gram, sem var annar skipta-
forstjóri í búi Árna, og Jón Grunnvíkingur sáu þau, kom
þeim saman um, hvers vegna vitum við ekki, að eyðileggja
þau, og það gerði Jón. En um þetta hefur Jón Eiríksson ekki
haft vitneskju.
Samkvæmt þeim gögnum, sem til eru, virðist það hafa